Handbolti

Barcelona tryggði farseðilinn til Kölnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Barcelona hafði betur gegn erkifjendum sínum í Atletico Madrid í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta.

Atletico vann fyrri leikinn á heimavelli, 25-20, en Barcelona tók forystuna strax í upphafi leiks í dag.

Það var þó spenna á lokamínútunum þar sem að Atletico hefði nægt fimm marka tap til að komast áfram í undanúrslitin. En Barcelona spilaði frábærlega á lokamínútunum og vann að lokum átta marka sigur, 32-24.

Siarhei Rutenka átti stórleik í liði Barcelona og skoraði ellefu mörk. Þá var markvörðurinn Danijel Saric frábær í markinu og varði til að mynda þrjú vítaköst.

Hjá Atletico Madrid var línumaðurinn Julen Aguinagalde öflugur með ellefu mörk. En þeir Ivano Balic og Kiril Lazarov hafa oft spilað betur en í þessum leik.

Undanúrslitin og úrslitin fara fram í Köln í Þýskalandi eins og venjulega. Fyrr í dag tryggði Kiel sér sæti þar en á morgun fara fram hinir tveir leikirnir í fjórðungsúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×