Boltanum var spyrnt útaf þegar 27. mínútan nálgaðist og við tók tilfinningaþrungin stung til minningar um markvörðinn. Turina fannst látinn í rúmi sínu síðastliðinn fimmtudag en talið er að hann hafi fengið hjartaáfall.
Stuðningsmenn AIK mættu snemma á völlinn í gærkvöldi merktir bolum til heiðurs Turina og skreyttu völlinn. Söngvar voru sungnir um Turina sem varði mark AIK frá árinu 2010. Turina lék í treyju númer 27 hjá AIK.

AIK vann 3-1 sigur í leiknum en töluverður taugatitringur virðist hafa verið hjá heimaliðinu í leiknum. Til marks um það klúðruðu heimamenn tveimur vítaspyrnum í fyrri hálfleik. Þeir sneru við blaðinu eftir að hafa lent 1-0 undir og fögnuðu 3-1 sigri með stuðningsmönnum í leikslok.
Tilkynnt hefur verið að AIK og Dinamo Zagreb mætist í ágóðaleik í Stokkhólmi þann 13. maí. Allur ágóði fer til fjölskyldu Turina en hann lék með liði Dinamo áður en hann hélt til Svíþjóðar.
Landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson spilar með AIK.