Handbolti

Ólafur kvaddur í Laugardalshöllinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán

Ólafur Stefánsson verður formlega kvaddur þegar Ísland mætir Rúmeníu í undankeppni EM 2014 þann 16. júní næstkomandi. Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni.

Þetta kom fram í tilkynningu frá HSÍ í dag. Ólafur mun þá leika sinn síðasta leik á ferlinum en hann er nú að spila með félagsliði í Katar. Í vor tók hann við þjálfun Vals og mun hann stýra liðinu næstu tvö árin.

Ólafur er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi en hann verður fertugur þann 3. júlí næstkomandi. Hann hefur skorað 1571 mark í 329 landsleikjum alls en fyrsta landsleikinn spilaði hann árið 1992.

Ólafur hefur fjórum sinnum orðið Evrópumeistari með félagsliðum sínum, Magdeburg og Ciudad Real, og þar að auki meistari í fimm löndum - Íslandi, Þýskalandi, Spáni, Danmörku og Katar. Hann hefur fjórum sinnum verið kjörinn íþróttamaður ársins, oftast allra af handboltamönnum.

Hann var í lykilhlutverki þegar að landsliðið vann sín einu verðlaun á stórmótum til þessa - silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og brons á EM í Austurríki árið 2010.

Ólafur hefur átt glæstan feril og er almennt talinn meðal bestu handboltamanna sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×