Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði annan hringinn í landsúrslitum NCAA í gær á þremur höggum yfir pari. Hún er samanlagt á tíu höggum yfir pari þegar keppni er hálfnuð.
Ólafía spilaði fyrsta hringinn á þriðjudaginn á sjö höggum yfir pari en af skorinu að dæma fann hún sig töluvert betur á golfvelli University of Georgia í samnefndu fylki í gær.
Hún deilir 103. sætinu ásamt fjórum öðrum kylfingum en alls fengu 126 af bestu háskólakylfingunum í Bandaríkjunum þátttökurétt í landsúrslitum.
Ólafía tryggði sér sæti í landsúrslitunum með frábærum leik í svæðisúrslitum á dögunum. Hún er einn af sex kylfingum um öll Bandaríkin sem komst í úrslitin sem einstaklingur en ekki sem hluti af liði.
Þriðji hringurinn verður leikinn í dag og sá fjórði á föstudag. Stephanie Meadow frá University of Alabama leiðir mótið á átta höggum undir pari.
