Handbolti

Hrikalegar myndir af Nincevic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Þýska blaðið Bild birtir í dag myndir á vefsíðu sinni af Króatanum Ivan Nincevic sem slasaðist illa eftir að hafa verið skallaður í handboltaleik.

Aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af leik Füchse Berlin og Hamburg þegar að Torsten Jansen, þýskur landsliðsmaður og leikmaður Hamburg, skallaði Nincevic.

Afleiðingarnar voru hrikalegar. Hann missti meðvitund og fékk slæmt mar á kinnbeini og hnakka, auk heilahristings. Þá þurfti að sauma stóran skurð undir hægra auganu, eins og sést á myndunum.

„Mér þykir leiðinlegt hvað gerðist. Þetta vildi ég ekki,“ sagði Jansen eftir leikinn. „Ég er sjálfur í áfalli og óska auðvitað Ivan skjóts bata.“

„Svona lagað á ekki að sjást í íþróttum,“ hefur Bild eftir Nincevic sjálfum. „Þetta olli mér miklum vonbrigðum. Ég átti ekki von á svona löguðu frá Torsten, ekki síst þar sem að leikurinn var búinn og liðið hans með öruggan sigur.“

Aganefnd þýska handboltasambandsins kemur saman í dag til að fara yfir atvikið. Ljóst er að þung refsing bíður Jansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×