Kylfingurinn Sergio Garcia er miður sín eftir að hafa látið umdeild ummæli falla um Tiger Woods fyrr í vikunni.
Það andar köldu á milli kylfinganna og sérstaklega eftir uppákomu sem varð á Players-meistaramótinu á dögunum. Eftir það hafa þeir ekki talast við.
Garcia var upp á sviði á þriðjudag þar sem hann tók við spurningum úr sal. Þá var hann spurður að því hvort hann myndi bjóða Tiger í mat fyrir US Open.
"Við verðum með hann í mat á hverju kvöldi. Við munum bjóða upp á djúpsteiktan kjúkling," sagði Garcia en ummælin þykja uppfull af fordómum.
"Þetta voru ekki kjánaleg ummæli heldur röng, særandi og algjörlega óviðeigandi," skrifaði Tiger á Twitter.
Garcia baðst síðan afsökunar í dag. Sagðist hafa séð svo mikið eftir ummælunum að hann hefði ekki sofið alla nóttina. Tiger hefur fyrirgefið Garcia en Spánverjinn vill hringja í Tiger og biðja hann persónulega afsökunar.
Garcia vill bjóða Tiger upp á djúpsteiktan kjúkling
