Tiger Woods lauk keppni í 65. sæti á Memorial-mótinu í Ohio um helgina. Bandaríski kylfingurinn segist þurfa að taka til í leik sínum enda Opna bandaríska meistaramótið handan við hornið.
Tiger hefur fimm sinnum unnið sigur á Murfield golfvellinum í Ohio og átti titil að verja. Honum tókst hins vegar aldrei að átta sig á hröðum flötunum um helgina og lauk keppni 20 höggum á eftir sigurvegaranum, landa sínum Matt Kuchar.
Lokaskor hans var 296 högg sem er næsthæsta skor hans á löngum atvinnumannaferli. Tveimur höggum færra en á WGC-Bridgestone boðsmótinu árið 2010.
„Púttin gengu augljóslega illa alla vikuna. Ég áttaði mig ekki á hraðanum. Mér fannst flatirnar aldrei líta út fyrir að vera jafn hraðar og raun bar vitni," sagði Tiger.
Bandaríska meistaramótið fer fram helgina 13.-16. júní. Aðspurður hvað hann þyrfti að bæta fyrir mótið var svar Tiger einfalt:
„Allt."

