Fótbolti

Bayern í sögubækurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Bayern er þýskur bikarmeistari eftir 3-2 sigur gegn Stuttgart í úrslitaleiknum í Berlín í kvöld.

Bayern komst í 3-0 forystu í leiknum og virtist ætla að sigla öruggum sigri í höfn. En þá vöknuðu leikmenn Stuttgart til lífsins og hleyptu mikilli spennu í lokamínúturnar með tveimur mörkum.

Thomas Müller kom Bayern yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik og forystan jókst í 3-0 með tveimur mörkum Mario Gomez snemma í síðari hálfleik. Bæði mörkin skoraði hann af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri.

Martin Harnik svaraði svo fyrir Stuttgart með tveimur mörkum. Fyrst með föstum skalla á 71. mínútu og svo með skoti úr vítateignum eftir þunga sókn níu mínútum síðar.

Leikmenn Stuttgart reyndu hvað þeir gátu til að skora jöfnunarmarkið en allt kom fyrir ekki. Bayern vann því þrefalt þetta árið því liðið varð einnig þýskur meistari sem og Evrópumeistari.

Þetta er í fyrsta sinn sem þýskt lið afrekar að vinna þessa þrennu. Sex lið höfðu afrekað að verða Evrópumeistari sem og deildar- og bikarmeistari í sínu landi sama tímabilið. Bayern bætist nú í þann hóp.

Sögulegt ár hjá Bayern og mögnuð kveðjustund fyrir þjálfarann Jupp Heynckes sem víkur í lok tímabilsins fyrir Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×