Handbolti

Aðalsteinn og Hannes Jón í úrvalsdeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða Eisenach

Ísland hefur eignast enn einn þjálfarann í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Eisenach tryggðu sér sæti í deildinni í dag.

Hann bætist þar með í hóp þeirra Alfreðs Gíslasonar, Guðmundar Guðmundssonar og Dags Sigurðssonar sem eru allir starfandi þjálfarar í þýsku úrvalsdeildinni.

Eisenach gulltryggði sæti sitt í efstu deild með sigri á Hildesheim, 27-26, í næstsíðustu umferð þýsku B-deildarinnar sem fór fram í kvöld. Hannes Jón Jónsson var markahæstur í liði Eisenach með sjö mörk. Hannes Jón var í gær valinn besti leikmaður þýsku B-deildarinnar.

Þrjú Íslendingalið komust upp um deild. Bergischer tryggði sér sigur í deildinni og Emsdetten hafnar í öðru sæti.

Bergischer vann Hüttenberg, 21-18, þar sem Arnór Gunnarsson fór á kostum og skoraði tíu mörk.

Emsdetten hafði svo betur gegn Leutershausen, 22-21. Ernir Hrafn Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Emsdetten en Ólafur Bjarki Ragnarsson lék ekki með liðinu í dag.

Aue, lið Rúnars Sigtryggssonar, vann Ferndorf, 33-26. Sveinbjörn Pétursson stóð vaktina í marki Aue sem er öruggt með sæti sitt í deildinni eftir úrslit dagsins. Liðið er í sextánda sæti með 27 stig.

Friesenheim vann Henstedt, 29-28, þar sem Árni Sigtryggsson skoraði þrjú mörk. Friesenheim er í níunda sæti deildarinnar með 36 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×