Handbolti

Fannar á leið til Grosswallstadt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fannar Þór Friðgeirsson tókst að finna sér nýtt félag í Þýskalandi eftir að hafa verið leiddur á asnaeyrunum af forráðamönnum Wetzlar.

„Ég var með tilbúinn samning í byrjun apríl og þetta leit mjög vel út,“ sagði Fannar Þór við Vísi í síðustu viku en þá hafði hann nýfrétt að Wetzlar hafði dregið samningstilboðið til baka.

Hann var í vanda staddur því flest lið voru búin að ganga frá sínum leikmannamálum fyrir næstu leiktíð. En samkvæmt þýskum fjölmiðlum mun Grosswallstadt hafa brugðist við og samið við Fannar Þór. Það verður formlega tilkynnt á næstu dögum.

Fannar verður þó að sætta sig við að fara niður í þýsku B-deildina þar sem að Grosswallstadt féll úr úrvalsdeildinni nú í vor. Sverre Jakobsson verður áfram á mála hjá Grosswallstadt en Rúnar Kárason fór nýverið til Rhein-Neckar Löwen.

Fannar hélt utan til Þýskalands árið 2010 og lék fyrst með Emsdetten í tvö ár. Hann kom svo til Wetzlar fyrir síðasta tímabil. Hann vandaði þó ekki forráðamönnum Wetzlar kveðjurnar í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku.

„Þessir menn eru bara algjör skítseiði í viðskiptum og ég fékk að kenna á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×