Þóra Björg Helgadóttir, markvörður LdB Malmö, kom í veg fyrir að Tyresö nældi í öll þrjú stigin með frábærri markvörslu skömmu fyrir leikslok í 2-2 jafntefli liðanna í kvöld.
Hin brasilíska Marta kom Tyresö í 2-0 með mörkum á 12. og 16. mínútu leiksins. Anja Mittag minnkaði muninn eftir varnarmistök Tyresö undir lok fyrri hálfleiks og var aftur á ferðinni eftir mínútuleik í síðari hálfleik.
Þóra sýndi svo snilli sína þegar tvær mínútur lifðu leiks. Þá varði hún skot gestanna af stuttu færi með miklum tilþrifum við mikinn fögnuð stuðningsmanna heimaliðsins og samherja sinna.
Þóra Björg tognaði aftan í læri undir lok leiksins. Þóra Björg missir af æfingaleiknum gegn Dönum þann 20. júní en koma verður í ljós hvort hún nái Evrópumótinu í Svíþjóð. Fyrsti leikur Íslands er gegn Norðmönnum 11. júlí.
Markvörslu Þóru má sjá í myndbandinu að neðan. Hún kemur eftir rúmlega sex og hálfa mínútu. Það er vel þess virði að horfa á allt myndbandið enda var leikurinn í Malmö bráðfjörugur.