Handbolti

Of margir sýndu ekki sitt rétta andlit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

„Við spiluðum bara illa. Það voru of margir leikmenn, ég meðtalinn, sem sýndu ekki sitt rétta andlit. Það reyndist mjög dýrkeypt," segir Rúnar Kárason um 29-23 tap Íslands gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í dag.

Íslenska liðið hélt í við heimamenn fyrsta stundarfjórðunginn. Þá tóku heimamenn völdin og sóknarleikurinn gekk afar illa hjá okkar mönnum.

Rúnar segir erfitt að átta sig á því hvers vegna íslensku strákunum hafi ekki tekist að laða fram það besta úr sínum leik. Það hafi ekki verið bakvið eyrað á þeim að liðið mætti tapa leiknum svo framarlega sem sigur ynnist á Rúmenum í lokaleiknum á sunnudag.

„Við ætluðum ekki að tapa þessum leik. Auðvitað viljum við vinna Rúmeníu en við viljum vinna alla leiki," segir Rúnar. Hann var skiljanlega fúll með tapið en hlakkar til leiksins á sunnudaginn þegar Ólafur Stefánsson verður kvaddur.

„Fyrir utan að ætla okkur sigur í leiknum vilja menn auðvitað kveðja Óla með sæmd. Ég hef enga trú á því að hann komi með hálfkæringi inn í leikinn. Hann mun örugglega sýna stórleik og leiða liðið til sigurs. Ég hef enga trú á öðru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×