Handbolti

Hamburg og Füchse Berlin í aukaleik um Meistaradeildarsæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Framkvæmdarstjórn Handknattleikssambands Evrópu, EHF, ákvað á fundi sínum í dag að þýsku stórliðin Hamburg og Füchse Berlin munu mætast í hreinni úrslitarimmu um laust sæti í Meistaradeild Evrópu.

Þetta eru liðin sem höfnuðu í fjórða og fimmta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en Hamburg er ríkjandi Evrópumeistari eftir sigur í Meistaradeildinni í síðasta mánuði.

Í stað þess að veita Hamburg beinan þátttökurétt fyrir sigurinn í Meistaradeildinni var ákveðið að láta þessi tvö lið spila tvo leiki, heima og að heiman, um eitt laust sæti, þar sem Füchse Berlin varð ofar í þýsku deildinni í vor.

Fjögur lið keppa svo í sérstöku umspilsmóti um eitt laust sæti til viðbótar. Þau eru Montpellier frá Frakklandi, Pick Szeged frá Ungverjalandi, Metalurg frá Makedóníu og Wisla Plock frá Póllandi. Sigurvegari mótsins fer í Meistaradeildina en hin þrjú í EHF-keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×