Handbolti

Þjálfari Slóvena býðst til að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Boris Denic, þjálfari slóvenska landsliðsins.
Boris Denic, þjálfari slóvenska landsliðsins. Mynd/Vilhelm
Slóvenía mistókst að tryggja sér þátttökurétt á EM í Danmörku og hefur því landsliðsþjálfarinn Boris Denic boðist til að stíga til hliðar.

Slóvenía var með Íslandi í riðli í undankeppninni en strákarnir okkar unnu Slóvena í tvígang í miklum spennuleikjum.

Slóvenar áttu þó enn möguleika á að komast áfram og þurftu að vinna Hvíta-Rússland á heimavelli í lokaumferðinni. Það tókst hins vegar ekki og því sat liðið eftir með sárt ennið.

Slóvenía komst í undanúrslit á HM á Spáni í janúar og hafnaði í sjötta sæti á EM í Serbíu í fyrra. Liðið þykir ungt og efnilegt og því er áfallið mikið fyrir Denic og lærisveina hans.

Denic er samningsbundinn til 2016 og verður mál hans tekið fyrir hjá slóvenska handboltasambandinu á morgun.

„Ég tel að það eigi ekki að taka boði hans um afsögn,“ sagði varaformaðurinn Bostjan Kozole. „Boris er fagmaður fram í fingurgóma, baráttumaður sem gefst aldrei upp og sættir sig illa við tap. Ég er þess fullviss að þessi reynsla muni efla hann fyrir komandi verkefni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×