Handbolti

Atletico Madrid að leysast upp?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Svo virðist sem að Atletico Madrid muni ekki tefla fram handboltaliði á næstu leiktíð en samningum allra leikmanna hefur verið sagt upp.

Þjóðverjinn Christian Dissinger staðfesti það við þýska fjölmiðla í dag en hann gekk nýverið til liðs við Atletico frá Kadetten Schaffhausen í Sviss.

„Því miður er þetta rétt. Meira veit ég ekki. Þetta er auðvitað mikið áfall,“ sagði Dissinger. Félagið hefur átt í fjárhagslegum vandræðum og svo virðist sem að liðið geti ekki starfað áfram í núverandi mynd.

Spænska blaðið Marca fjallar um málið í dag ásamt þýskum fjölmiðlum en ekkert hefur verið staðfest enn.

Félagið hét áður Ciudad Real og var um árabil eitt sterkasta félag Evrópu. Liðið varð þrefaldur Evrópumeistari með Ólaf Stefánsson innanborðs og margfaldur meistari heima á Spáni.

Það fluttist svo til höfuðborgarinnar Madrídar fyrir tveimur árum síðan, einnig vegna fjárhagsvandræða, og var sett undir hatt knattspyrnustórveldsins Atletico Madrid. En svo virðist sem að handboltalið félagsins sé nú endanlega að leysast upp.

Þjálfarinn Talant Duishebaev hóf að þjálfa Ciudad Real árið 2005 og hefur haldið tryggð við liðið alla tíð síðan. Einnig í ár eftir að félagið missti marga af sínum sterkustu leikmönnum á vormánuðum og framtíðarhorfur þess dökkar.

Hann þarf nú eins og leikmenn liðsins að finna sér nýtt félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×