Handbolti

Zeitz óánægður með framkomu Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photso / Getty Images
Christian Zeitz, sem samdi nýlega við ungverska liðið Veszprem, segir tilboð sem hann hafi fengið frá forráðamönnum Kiel hafa verið hlægilegt.

Zeitz er 32 ára gamall og hefur verið á mála hjá Kiel síðan 2003. Samningur hans við félagið rennur út eftir næsta tímabil og því mun hann ekki flytja sig yfir til Ungverjalands fyrr en á næsta ári.

En miðað við yfirlýsingar hans í opnu bréfi sem hann sendi stuðningsmönnum Kiel er hann ekki ánægður með þá meðhöndlun sem hann hafi fengið hjá forráðamönnum liðsins.

„Ákvörðun mín um að fara er eðlilegt framhald á því sem verið hefur í gangi síðustu mánuði,“ sagði Zeitz og bætti við að tilboðið sem hann hafði í höndunum frá Kiel hafi verið svo lélegt að það bæri ekki að túlka á annan hátt en að hann ætti vinsamlegast að fara eitthvert annað.

„Ég er á þeim aldri þar sem ég þarf að hugsa um framtíð mína og því hafnaði ég tilboði Kiel. Ég hefði þó gjarnan viljað vera áfram hér og spila hjá Kiel til loka ferilsins.“

Hann vonast til þess að fá sanngjarna meðhöndlun á síðasta ári samningstímans síns hjá Kiel og að tekið verði á málunum á fagmannlegan máta.

Forráðamenn Kiel sendu frá sér tilkynningu til að svara ásökunum Zeitz. Þar er þeim öllum vísað til föðurhúsanna. „Við látum ekki draga okkur ekki í samningsdeilu við leikmenn. Allir leikmenn fá sanngjarna meðhöndlun,“ segir í yfirlýsingunni meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×