Handbolti

Enn einn þjálfarinn til Noregs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Gunnarsson.
Arnar Gunnarsson. Mynd/Valli
Arnar Gunnarsson, fyrrum þjálfari karlaliðs Selfoss, hefur verið ráðinn sem þjálfari kvennaliðs Sotra SK sem leikur í C-deildinni þar í landi.

Arnar er Akureyringur en hefur starfað á Selfossi undanfarinn áratug, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari. Hann tók við þjálfun meistaraflokks Selfoss árið 2011 og fór með liðið í undanúrslit bikarkeppninnar í vetur.

Sífellt fleiri félög á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa ráðið íslenska þjálfara með góðum árangri. Enda kemur fram á heimasíðu félagsins að það hafi verið vilji forráðamanna Sotra að breyta til í þjálfaramálum og ráða Íslending sem hafi gott orð á sér fyrir dugnað og metnað.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennalandsliðsins, mælti með Arnari og þá kom Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins, einnig að málinu en hann er sem kunnugt er Selfyssingur sjálfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×