Handbolti

Alfreð með róttækar hugmyndir um heimsdeild í handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Gíslason viðrar athyglisverðar hugmyndir um nýja ofurdeild í félagsliðahandbolta í samtali við þýska blaðið Spiegel í dag.

„Mínar hugmyndir ganga út á að byggja upp heimsdeild út frá Meistaradeild Evrópu,“ er haft eftir Alfreð í blaðinu.

„Ég er þess fullviss um að það sé hægt að finna styrktaraðila við hæfi og gera samninga um sjónvarpsrétt.“

Nú þegar er til heimsmeistarakeppni félagsliða sem heitir Super Globe og er skipulögð af IHF, Alþjóðahandknattleikssambandinu. Alfreð hugnast þó betur að láta EHF, Handknattleikssamband Evrópu, skipuleggja heimsdeildina út frá velgengni Meistaradeildarinnar.

„Það væri vandræðalaust að finna sterkt lið í Arabíu,“ segir Alfreð og horfir sérstaklega til Katar. Einnig bendir hann á egypsku höfuðborgina Kaíró þar sem væri hægt að finna fulltrúa frá Afríku, lið frá Buenos Aires í Argentínu sem og frá Suður-Kóreu.

Deildinni fylgdu stóraukin ferðalög fyrir liðin sem myndu taka þátt en það ætti ekki að vera nein fyrirstaða. „Liðin myndu þá fara í lengri útileikjareisur, líkt og þekkist vel í NBA-deildinni.“

Þetta væri þó ekki mögulegt nema að breyta fyrirkomulaginu í þýsku úrvalsdeildinni.

„Þýsku liðin ættu ekki að spila í deildinni heima fyrr en undir lok tímabilsins. Það yrði átta liða úrslitakeppni þar sem fjögur efstu liðin í deildinni myndu keppa við þau fjögur lið sem hefðu spilað í heimsdeildinni.“

Ólíklegt er að slíkar hugmyndir myndu leggjast vel í forráðamenn þýsku úrvalsdeildarinar og IHF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×