Handbolti

Bjarki Már til Eisenach

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ekkert verður af því að Bjarki Már Elísson muni spila með FH í N1-deild karla á næstu leiktíð þar sem hann hefur samið við Eisenach í Þýskalandi.

Þetta kemur fram á vefmiðlinum handball-world.com og vísar í tilkynningu frá félaginu. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Eisenach og kom liðinu upp í þýsku úrvalsdeildina í vor. Hannes Jón Jónsson spilar með liðinu.

Bjarki Már samdi við FH nú í sumar eftir að hafa fengið sig lausan frá HK eftir að tímabilinu lauk í vor. Hann hélt þó þeim möguleika opnum að fara í atvinnumennsku og er það niðurstaðan nú.

Karsten Wöhler, framkvæmdarstjóri Eisenach, segir að félagið hafi þurft að bregðast við meiðslum leikmanna og auka breidd leikmannahópsins.

„Með komu Bjarka Más eigum við nú tvo sterka vinstri hornamenn og samkeppni er góð fyrir liðið,“ segir hann og bætir við að félagið hafi notið góðs af því að Bjarki gat fengið sig lausan frá FH.

„Samningurinn gekk upp þar sem að Bjarka Má var heimilt að semja við lið í þýsku úrvalsdeildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×