Golf

Ótrúlegur lokahringur tryggði Mickelson titilinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mickelson fagnar fugli á 18. holu
Mickelson fagnar fugli á 18. holu Mynd/Gettyimages
Phil Mickelson tryggði sér sinn fyrsta sigur sinn á Opna breska meistaramótinu með ótrúlegri spilamennsku á Muirfield vellinum í Edinborg, Skotlandi.

Mickelson sem var tveimur höggum yfir pari fyrir daginn í dag spilaði hringinn nánast óaðfinnanlega og setti niður sex fugla og aðeins einn skolla. Þar af fékk hann fjóra fugla á seinustu sex holunum, endaði á 281 höggi og náði öruggri forystu.

Lee Westwood sem leiddi fyrir daginn í dag átti erfiðan lokahring og lauk á 285 höggum eða einu höggi yfir pari eftir að hafa byrjað daginn þremur undir. Næstu menn, Tiger Woods og Hunter Mahan náðu sér heldur ekki á strik og enduðu þeir báðir 2 höggum yfir pari jafnir í sjötta sæti.

Þetta var fyrsti sigur Mickelson á Opna breska en hann hafði næst komist sigri árið 2011 þegar hann endaði í öðru sæti. Mickelson hefur nú unnið þrjú af fjórum stórmótunum, það er Masters mótið, PGA meistaramótið og Opna breska en hann bíður enn sigurs á Opna Bandaríska.

„Ég er gríðarlega stoltur, ég vissi ekki hvort ég myndi einhvertímann ná að vinna þennan titil en að gera þetta á þennan hátt. Ég spilaði sennilega eitt besta golf sem ég hef spilað og að hafa náð það á þessum tíma er frábært, ég vill bara þakka kærlega öllum þeim sem aðstoðuðu mig og öllum sem komu að mótinu," sagði Mickelson við verðlaunaafhendinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×