Fótbolti

Leynivopn Íslands var einn á íþróttaforsíðu Aftonbladet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er óhætt að segja að lukku-gullfiskurinn Sigurwin hafi stolið fyrirsögnunum í Aftonbladet í morgun en Ísland og Svíþjóð mætast á morgun í átta liða úrslitum EM kvenna í fótbolta. Forsíðan á sportsíðum Aftonbladet í morgun var einföld og táknræn.

Þar var einfaldlega útklippt mynd af Sigurwin og ekkert annað. Undir gullfisknum stóð síðan: "Hotet mot Sverge" sem þýðir "Ógnin við sænska liðið."

Heil opna fer í umfjöllun um íslenska liðið og þar sjást landsliðskonurnar Katrín Jónsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir á stórri mynd að "leika" við lukkudýrið.

Allar voru stelpurnar spurðar út í Sigurwin og söguna á bak við hann. Þær hafa líka sumar talað um það að sænska pressan sé minnst að tala við þær um fótbolta en mun meira um eitthvað eins og gullfiskinn Sigurwin.

Sænsku blaðamennirnir virðast vera öruggir um það hvernig leikurinn fer en okkar stelpur ætla sér að eiga síðasta orðið þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×