Fram kom í íslenskum fjölmiðlum í dag að leikmenn íslenska landsliðsins hafi sent Sigurði bréf á sínum tíma þar sem þær gagnrýna störf þjálfarans. Fjórir leikmenn liðsins skrifuðu undir bréfið.
„Ég tók ekki þátt í því að senda þetta bréf en aftur á móti bað ég Sigga Ragga um að hitta mig persónulega,“ segir Edda Garðarsdóttir, fyrrum leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við Vísi.
Það kom mörgum á óvart þegar Edda Garðarsdóttir var ekki valin í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Svíþjóð. Edda er gríðarlega reynslumikill leikmaður og vildu sumir meina að hún hefði átt skilið að vera í landsliðinu.
Heigull að tilkynna mér þetta í gegnum símann
„Ég bað bara um fund með honum undir fjögur augu og sagði honum þar hvað mér þætti um hans störf, ég þarf ekki að senda neinn tölvupóst. Ég veit vel hvaða leikmenn þetta voru sem skrifuðu þetta bréf en vil samt sem áður ekkert fara út í það að nafngreina neinn," segir Edda.
„Það var misjafnt hvað leikmenn voru að gagnrýna við hans störf en mér þykir nokkuð einkennilegt að hann sé að fara með þetta í fjölmiðla. Ég vildi fá að hitta hann eftir Evrópumótið í Svíþjóð og ræða almennilega við hann. Það sem fór okkar á milli á þeim fundi er bara milli mín og hans.
„Mér fannst ekki smekklegt að hann hafi tilkynnt mér í gegnum síma að ég yrði ekki valin í lokahópinn og vildi því tala við hann í eigin persónu. Hann var bara heigull að tilkynna mér þetta í gegnum síma og því vildi ég fá fund.“

„Það var talað um það fyrir mót að þetta væri nú kannski orðið gott hjá honum og ég held að það séu bara allir sammála um það," segir Edda ákveðin.
„Auðvitað eru alltaf skiptar skoðanir á þjálfurum og innan hópsins var þetta kannski ekkert stórmál. Ég held að allir hafi samt gott að því að Sigurður fari að snúa sér að öðru núna. Siggi Raggi á mjög stóra kosti og galla bara eins og allir aðrir. Ég held að það verði gott fyrir hann að komast á einhvern nýjan stað þar sem hann mun örugglega njóta sín betur.
Ég skrifaði ekki undir þetta bréf á sínum tíma en kannski hefði ég átt að gera það. Það var ekkert í þessu bréfi sem var eitthvað hræðilegt og leikmenn voru ekkert að láta þjálfarann heyra það.“
Vildu fá bréf frá stelpunum
Margar sögur voru á kreiki um það að mikil óánægja væri tekinn að myndast innan hópsins á sínum tíma.
„Knattspyrnusambandinu fannst ekki nóg að fá nokkur símtöl frá leikmönnum og vildi því fá þetta skriflegt. Það væri því best að ræða þetta mál betur við Þórir [Hákonarson, framkvæmdarstjóra KSÍ]. Sigurður vill meina að fjórar stelpur hafi skrifað undir þetta bréf en það voru einnig nokkrar sem vildu ekki koma undir nafni sem gáfu grænt ljós."