Handbolti

Sér um að hausinn á dómurum sé í lagi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóhann Ingi Gunnarsson
Jóhann Ingi Gunnarsson
Jóhann Ingi Gunnarsson, íþróttasálfræðingur og fyrrum handknattleiksþjálfari, stendur fyrir námskeiði fyrir evrópska handknattleiksdómara  með því markmiðið að bæta leiðtogahæfileika þeirra og sjálfstraust.

Jóhann Ingi hefur áður þjálfað íslenska landsliðið í handknattleik og einnig stórliðið Kiel í Þýskalandi. Hann á að baki farsælan feril sem þjálfari en hefur nú snúið sér alfarið að sálfræði.

Jóhann mun halda námskeið í höfuðstöðvum evrópska handknattleikssambandsins í Vín daganna 30. ágúst – 1. september.

Námskeiðið er einn af aðal undirbúningsnámskeiðunum fyrir Evrópumóti í Danmörku sem fram fer í janúar á næsta ári. 16 dómarapörum hefur verið boðið á námskeiðið en aðeins komast tólf pör á mótið sjálft.

„Dómarar stjórna leiknum,“ sagði Jóhann Ingi í viðtali við vefsíðu evrópska sambandsins.

„Það er ekki hægt að láta handboltaleik fara fram án dómara og því verða þeir að læra ákveðna leiðtogahæfileika til að stjórna leiknum.“

„Dómarar þurfa að koma jafn vel undirbúnir og leikmenn á svona stórmót og þurfa því einnig að vinna mikið í andlega þættinum.“

„Við reynum að fara í gegnum hvernig dómarar eiga að takast á við erfiðar aðstæður og einnig er mikilvægt fyrir þá að takast á við sín  eigin mistök. Það er mikilvægt fyrir dómara að jafna sig sem allra fyrst á þeirra mistökum og halda ótröðum áfram.“

Jóhann Ingi ætlar sér að fara með sálfræðilega þáttinn enn lengra fyrir Evrópumótið í Danmörku.

„Það er mikilvægt að byggja upp jákvætt viðhorf til dómara í íþróttinni og ég verð þeirra innan handa allt mótið í Danmörku.“

„Þetta verður í fyrsta skipti sem sálfræðingur verður á staðnum fyrir dómara og það getur reynst mikilvægt og jafnvel nauðsynlegt til að stöðva blæðinguna sem fyrst, ef svo má að orði komast,“ sagði Jóhann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×