Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, horfði upp á sína menn steinliggja 1-3 á heimavelli á móti frábæru liði Bayern Munchen. Bæjarar yfirspiluðu City-menn stærsta hluta leiksins en enska liðið náði að laga stöðuna undir lokin.
„Við spiluðum skelfilega í þessum leik en Bayern-liðið spilaði frábærlega. Við gerðum klaufaleg mistök í mörkunum þeirra. Við náðum ekki að spila okkar leik, Bayern var með boltann og við náðum ekki koma okkur inn í leikinn," sagði Manuel Pellegrini.
Hann gerði ekki breytingar fyrr en langt var liðið á leikinn en David Silva átti flotta innkomu og gerði mikið á lokakaflanum, lagði upp mark og átti skot í slá úr aukaspyrnu.
„David Silva spilaði bara í 20 mínútur en við komust meira í boltann þegar hann kom inn á völlinn. Þetta var mikilvægur leikur fyrir mitt lið til að sjá hvar við stöndum og hvert við þurfum að komast. Við verðum að laga fullt af hlutum hjá okkur," sagði Pellegrini.
