Handbolti

Grátlegt tap hjá stelpunum í Slóvakíu

mynd/valli
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik var grátlega nálægt því að næla í mikilvægt stig gegn Slóvakíu ytra í dag. Fínn leikur en stelpurnar fara tómhentar heim eftir 19-18 tap.

Fyrri hálfleikur var mjög jafn. Slóvakar tóku frumkvæðið snemma en íslensku stelpurnar hleyptu þeim aldrei langt fram úr sér.

Þær komust síðan yfir, 7-8, en staðan var jöfn í hálfleik, 9-9.

Rúmensku dómararnir voru ekki beint hliðhollir íslenska liðinu. Ráku þær þrisvar af velli á meðan Rúmenar voru alltaf með fullskipað lið. Svo átti Ísland að fá tvö víti sem ekki voru dæmd.

Svo var hörkustemning í stúkunni. Talsvert mótlæti en stelpurnar réðu ágætlega við það.

Dómgæslan skánaði aðeins í seinni hálfleik en leikurinn breyttist lítið. Liðin héldust í hendur nánast allan tímann en heimastúlkur þó oftar en ekki skrefinu á undan.

Ísland fékk lokasókn leiksins og gat jafnað. Rut Jónsdóttir tók skotið en það var varið.

Stelpurnar áttu meira skilið úr þessum leik. Þær spiluðu góða vörn, markvarslan til mikillar fyrirmyndar og sóknarleikurinn lengi vel góður. Þolinmóðar og reyndu að velja góð skot.

Karen þurfti reyndar að taka ansi mörg neyðarskot. Hún dró vagninn og var besti leikmaður liðsins.

Það vantaði framlag frá fleirum. Stella var heillum horfin og Rut lét ekki til sín taka fyrr en í seinni hálfleik.

Það hjálpaði ekki til að dómararnir drógu lengi vel vel taum heimaliðsins. Þreytt að tala um dómara en staðreyndin samt sú að dómgæslan var lengi vel ekki boðleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×