Handbolti

Alfreð og Wilbek missa mikilvægan mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Lauge Schmidt í leik með danska landsliðinu.
Rasmus Lauge Schmidt í leik með danska landsliðinu. Mynd/AFP
Danska landsliðið varð fyrir öðru áfalli á stuttum tíma þegar leikstjórnandinn Rasmus Lauge Schmidt meiddist á hné í æfingaleik á móti Krótíu í Noregi í gær. Áður hafði 212 sm skyttan Nikolaj Markussen slitið hásin.

Rasmus Lauge er á sínu fyrsta ári hjá THW Kiel en hann kom til þýska stórliðsins frá Bjerringbro-Silkeborg í sumar. Rasmus Lauge hefur spilað mikilvægt hlutverk hjá Kiel þar sem að Aron Pálmarsson er meiddur og Frakkinn Daniel Narcisse farinn heim til Frakklands.

Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, var að vonum svekktur eftir leikinn með að missa annan lykilmann á einni viku. Hann óttast það versta með Rasmus Lauge sem er að hann sé með slitið krossband.

„Maður getur kannski lifað með að missa einn leikmann í meiðsli en það er alltof mikið þegar tveir menn meiðast sem voru öruggir með sæti sitt í EM-hópnum. Þetta er þungt högg fyrir liðið. Það er sérstaklega slæmt að missa Lauge því hann var í frábæru formi," sagði Ulrik Wilbek við TV2.

Danir ætla sér stóra hluti á Evrópumótinu en þeir eru þar á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×