Handbolti

Arnór Atlason líklega ekki með í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/NordicPhotos/Getty
Arnór Atlason verður líklega ekki með í seinni æfingaleik Íslands og Austurríkis sem fer fram í kvöld en Arnór meiddist á hné í fyrri leiknum í gær sem Ísland vann 29-28. Ísland og Austurríki mætast aftur í Linz klukkan 19.15.

Arnór ætlar að hita upp fyrir leikinn á eftir og láta reyna á hnéð en forráðamenn liðsins eru ekki bjartsýnir á að hann geti spilað.

Arnór skoraði eitt mark í leiknum í gær en hann fékk þungt högg á hnéð og þurfti að fara af velli eftir fimmtán mínútna leik.

Að sögn Gunnars Magnússonar aðstoðarþjálfara íslenska liðsins þá lítur þetta ekki vel út fyrir leikinn í kvöld en hann reiknar þó ekki með að þessi meiðsli séu alvarleg.

Þetta eru samt enn ein forföllin hjá íslenska landsliðinu og minnkar breidd liðsins í leiknum í kvöld. Fyrir er íslenska liðið án þeirra Alexanders Peterssonar, Arons Pálmarssonar, Arnórs Þórs Gunnarssonar, Ingimundar Ingimundarsonar og Rúnars Kárasonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×