Handbolti

Kári Kristjáns fær alvöru samkeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael V. Knudsen.
Michael V. Knudsen. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kári Kristjánsson, línumaður íslenska landsliðsins, mun fá mikla samkeppni um línustöðuna hjá danska handboltaliðinu Bjerringbro-Silkeborg því Michael V. Knudsen hefur samið við danska liðið. Þetta kemur fram á heimasíðu danska félagsins.

Michael V. Knudsen er danskur landsliðsmaður sem er á sínu áttunda tímabili með þýska liðinu SG Flensburg-Handewitt. Hann lék með Viborg HK og Skjern Håndbold áður en hann fór til Þýskalands.

Michael V. Knudsen hefur verið í hópi bestu línumanna heims en hann er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við Bjerringbro-Silkeborg. Knudsen hefur skorað 772 mörk í 231 landsleik fyrir Danmörku og verður með danska landsliðinu á EM í janúar. Hann hefur skorað yfir þúsund mörk í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

„Bjerringbro-Silkeborg er mjög spennandi lið og þar er allt til alls. Þetta er toppklúbbur með góða leikmenn í öllum stöðum. Ég tel að þetta sé lið sem geti farið alla leið á næsta tímabili. Liðið er með góðan þjálfara og sé ekkert því til fyrirstöðu að við verðum danskir meistarar," sagði Michael V. Knudsen í viðtali á heimasíðu Bjerringbro-Silkeborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×