Handbolti

„Ekki leitað út í hornin þegar illa gengur í sókninni“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson.
„Liðið drullaði bara á sig. Ég skoraði ekkert mark og tók reyndar ekkert skot,“ segir hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hjá Eisenach.

Bjarki Már og félagar steinlágu gegn Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í gær 23-31 en markaleysi Bjarka Más kom þó helst á óvart. Nánar um leikinn hér.

„Við höfðum skorað þrjú mörk fyrstu tuttugu mínúturnar,“ segir Bjarki Már. Hann hafi hreinilega ekki verið með í leiknum og segir ástæðuna mega rekja til hræðilegrar byrjunar liðsins í leiknum.

„Í alþjóðlegum handbolta er það bara þannig að ef illa gengur í sókninni þá er ekki leitað út í hornin,“ segir Bjarki. Sjónvinkill útispilarana verði hreinlega þrengri og hann hafi ekki fengið úr neinu að moða.

Bjarki Már fékk sér í kjölfarið sæti á varamannabekknum. Varamaður Bjarka í vinstra horninu, Adrian Wöhler, nýtti tækifærið þokkalega og skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum.

„Hann hefur þurft að sitja lengi á bekknum,“ segir Bjarki Már um samkeppnisaðila sinn. Hann þakkar fyrir traustið sem honum hefur verið sýnt fyrri hluta tímabils þar sem hann hefur spilað stærstan hluta leikjanna.

„Maður þarf ekki að horfa lengra en á aðra Íslendinga í kringum sig sem fá því miður mjög takmarkaðan spiltíma.“

Nánar verður rætt við Bjarka Má í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×