Handbolti

Ekkert íslenskt mark í stóru tapi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán
Hvorki Bjarki Már Elísson né Hannes Jón Jónsson komust á blað þegar Eisenach steinlá gegn Magdeburg í þýska handboltanum í dag.

Gestirnir frá Magdeburg byrjuðu leikinn mun betur. Þeir komust í 4-0 og 12-4 í fyrri hálfleik og staða heimamanna slæm. Staðan í hálfleik var 17-8 og munurinn hélst svipaður út leikinn.

Athygli vekur að Bjarki Már komst ekki á blað hjá nýliðunum en hornamaðurinn er markahæsti Íslendingurinn í þýsku úrvalsdeildinni með 64 mörk. Bjarki Már spilaði aðeins fyrstu 20 mínútur leiksins en fékk úr litlu að moða. Hann fékk því að hvíla sig og varamaður hans að spreyta sig. Sá nýtti tækifærið ágætlega með þremur mörkum úr fjórum skotum.

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar lið Eisenach sem situr í 16. sæti af 18 liðum í deildinni. Magdeburg er í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×