Handbolti

Ballið búið hjá Þóri og norsku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson þurfti að sætta sig við svekkjandi tap í kvöld. Katrine Lunde varði vel en það var ekki nóg.
Þórir Hergeirsson þurfti að sætta sig við svekkjandi tap í kvöld. Katrine Lunde varði vel en það var ekki nóg. Mynd/AFP
Norska kvennalandsliðið í handbolta er úr leik á HM í Serbíu eftir þriggja marka tap á móti heimastúlkum í átta liða úrslitunum í kvöld. Dönsku stelpurnar verða fulltrúar Norðurlanda í undanúrslitunum eftir sigur á Þjóðverjum.

Noregur spilar ekki um verðlaun á stórmóti í fyrsta sinn síðan að Þórir Hergeirsson tók við liðinu eftir 25-28 tap á móti Serbíu í kvöld. Noregur er ríkjandi heimsmeistari og norsku stelpurnar voru búnar að vinn fjórtán HM-leiki í röð fyrir leikinn.

Norska kvennalandsliðið vann þrjú gull, eitt silfur og eitt brons á fyrstu fimm stórmótum sínum undir stjórn Þóris.

Norska liðið byrjaði leikinn vel og komst meðal annars í 5-2 og 11-6. Noregur var síðan 16-15 yfir í hálfleik og náði fimm marka forskoti með því að skora fjögur fyrstu mörk seinni hálfleiksins.

Þá fór allt í baklás hjá norska liðinu sem skoraði ekki mark í tólf mínútur og á meðan breyttu Serbar stöðunni úr 16-21 í 23-21. Serbar héldu frumkvæðinu síðan út leikinn og tryggðu sér frábæran sigur. Sanja Damnjanović og Dragana Cvijić skoruðu báðar átta mörk fyrir Serbíu en Heidi Löke var með fimm mörk fyrir Noreg.

Danmörk vann 31-28 sigur á Þjóðverjum eftir að staðan var 17-17 í hálfleik. Dönsku stelprunar tryggðu sér sigur með frábærum endaspretti en þær unnu síðustu átta mínúturnar 7-2 þar sem Trine Östergaard Jensen skoraði fjögur af sex mörkum sínum í leiknum. Kristina Kristiansen var markahæst með sjö mörk úr átta skotum.

Í undanúrslitunum á föstudaginn mætast Brasilía og Danmörk annarsvegar og Pólland og Serbía hinsvegar. Brasilía og Pólland hafa aldrei áður komist svona langt og Serbía er í undanúrslitunum í fyrsta sinn síðan 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×