Handbolti

Pólsku stelpurnar fyrstar inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pólsku stelpurnar fagna hér sigri.
Pólsku stelpurnar fagna hér sigri. Mynd/AFP
Pólland tryggði sér óvænt sæti í undanúrslitum á HM kvenna í handbolta í kvöld eftir eins marks sigur á Frakklandi, 22-21, í átta liða úrslitum keppninnar.

Það varð hinsvegar að framlengja leik Brasilíu og Ungverjalands en honum lauk með 26-26 jafntefli.

Pólska liðið lagði grunninn að sigrinum með því að skora sjö mörk í röð í fyrri hálfleiknum og breyta stöðunni úr 3-5 í 10-5. Pólland var 11-8 yfir í hálfleik og var með þriggja marka forskot, 21-18, þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Frakkar náðu að minnka muninn í eitt mark en tókst aldrei að jafna.

Sigur Póllands kemur nokkuð á óvart en liðið varð í 3. sæti í riðli Noregs og sló síðan Rúmeníu út úr 16 liða úrslitunum. Frakkar voru hinsvegar búnir að vinna sex fyrstu leiki sína í keppninni í Serbíu. Það er Daninn Kim Rasmussen sem þjálfar liðið.

Þetta er besti árangur pólska kvennalandsliðsins frá upphafi en liðið var ekki með í Brasilíu fyrir tveimur og hafði mest náð 5. sætinu á HM 1973.

Seinna í kvöld mætast síðan Serbía-Noregur og Danmörk-Þýskaland í hinum tveimur leikjunum í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×