Handbolti

Eina markið hennar Jelenu kom heimastúlkum áfram á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbar fagna sigurmarki Jelenu í kvöld.
Serbar fagna sigurmarki Jelenu í kvöld. Mynd/AFP
Serbía tryggði sér leik á móti Noregi í átta liða úrslitum HM kvenna í handbolta í Serbíu eftir eins marks sigur á Suður-Kóreu, 28-27, í spennuleik í sextán liða úrslitunum í kvöld.

Reynsluboltinn Jelena Erić skoraði sigurmark Serbíu rétt fyrir leikslok en þetta var eina markið og eina skotið hennar í leiknum.

Andrea Lekić var markahæst hjá Serbíu með átta mörk en þær Sanja Damnjanović og Jelena Popović skoruðu báðar sex mörk.

Serbía var 13-12 yfir í hálfleik en var fjórum mörkum yfir, 25-21, þegar átta mínútur voru til leiksloka. Suður-Kóreska liðið gafst ekki upp og náði að jafna metin í þrígang áður en Jelena Erić skoraði sigurmarkið rétt áður en lokaflautið gall.

Serbía mætir Noregi í átta liða úrslitunum á miðvikudaginn en í hinum leikjunum mætast: Brasilía-Ungverjaland, Pólland-Frakkland og Danmörk-Þýskaland.

Mynd/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×