Handbolti

Stelpurnar hans Þóris brunuðu inn í átta liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fagna hér sigrinum í kvöld.
Norsku stelpurnar fagna hér sigrinum í kvöld. Mynd/AFP
Norska kvennalandsliðið átti ekki í miklum vandræðum með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum á HM kvenna í handbolta sem fer fram í Serbíu. Norska liðið vann tíu marka sigur á Tékklandi, 31-21, í sextán liða úrslitum í kvöld.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er því á góðri leið með að koma sínum stelpum alla leið í leiki um verðlaun á enn einu stórmótinu en norska liðið hefur unnið sex fyrstu leiki sína á mótinu með yfir tíu mörkum að meðaltali í leik.

Norska liðið var 19-10 yfir í hálfleik í kvöld en skoraði síðan fjögur fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum og komst þrettán mörkum yfir, 23-10. Tékkar náðu aðeins að laga stöðuna fyrir leikslok en yfirburðirnir voru algjörir.

Nora Mörk og Heidi Löke voru markahæstar hjá Noregi með fimm mörk hvor enn Tonje Nöstvold skoraði fjögur mörk. Silje Solberg varði 52 prósent skot sem á hana komu í leiknum.

Noregur mætir annaðhvort Suður-Kóreu eða Serbíu í átta liða úrslitum en heimastúlkur í Serbíu voru einu marki yfir í hálfleik í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×