„Það er uppselt klukkan 19 og 22 hjá okkur,“ segir Davíð Hjálmarsson, vaktstjóri í Sambíóunum, Egilshöll. Hann segir örfáa miða eftir á sýninguna klukkan 15:40 og segir annan í jólum og nýársdag þá stærstu á bíóárinu.
Lítið var eftir af miðum á Hobbitann klukkan 14 í Sambíóunum, Álfabakka og segir Kolbrún Ýr Hjartardóttir vaktstjóri. „Svo er líka nóg að gera á Frozen,“ segir Kolbrún um nýjustu teiknimynd Disney.
Í Smárabíói er uppselt á Hobbitann í lúxussal og mikið búið að selja á kvöldsýningarnar. „Hobbitinn er að einoka þetta svolítið í dag,“ segir Birna Guðbrandsdóttir vaktstjóri en bætir því við að einnig sé nóg að gera í barnamyndunum í dag. Aðspurð hvers vegna annar í jólum sé svona mikill bíódagur segir hún að fólk sé auðvitað bara í fríi og því gott að koma í bíó. „Það er mikið stuð í vinnunni í dag og nóg að gera.“
Sandra Sif Guðbrandsdóttir í Laugarásbíó sagði rétt fyrir klukkan 14 að lítið væri eftir af miðum á 14-sýningu Hobbitans. Hún segir að Íslendingar hafi alltaf sótt mikið í bíó í jólafríinu, en sérstaklega núna eftir að myndirnar um Hobbitann og Hringadróttinssögu náðu vinsældum. „Þetta er gott frí og fólk hefur ekkert annað að gera en að koma í bíó,“ segir Sandra.
Auk Hobbitans er nýjasta kvikmynd leikstjórans Martins Scorsese, The Wolf of Wall Street, einnig frumsýnd í dag.