Handbolti

Brasilía heimsmeistari í handbolta í fyrsta sinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mynd/Gettyimages
Brasilía varð í dag fyrsta liðið frá Suður-Ameríku til að verða heimsmeistari í handbolta kvenna þegar þær sigruðu Serbíu 22-20 í Belgrad. Brasilíska liðið fór taplaust í gegnum mótið og sigraði serbneska liðið tvisvar á mótinu.

Brasilíska liðið var fyrsta liðið frá Suður Ameríku sem komst í undanúrslitin þar sem þær lögðu Dani á föstudaginn 27-21. Mikill uppgangur hefur verið á handbolta í Brasilíu síðustu ár, liðið lenti í fimmtánda sæti 2009, fimmta sæti á heimavelli 2011 og kepptu til úrslita í ár.

Serbneska liðið tók þátt í sínu fyrsta Heimsmeistaramóti frá árinu 2003 þegar þær lentu í 9 sæti. Með þjóðina á bak við sig á heimavelli var gengi liðsins gott og tryggðu þær sæti sitt í úrslitum með auðveldum sigri á Póllandi á föstudaginn.

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en þegar leið á leikinn náðu gestirnir frá Brasilíu sífellt betri tökum á leiknum. Þær brasilísku tóku tveggja stiga forskot inn í hálfleikinn 13-11 og náðu þær að auka forskotið í upphafi seinni hálfleiks. Serbneska liðið gafst hinsvegar aldrei upp og smátt og smátt minnkuðu þær forskotið niður í eitt mark þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Jelena Nisavic jafnaði metin fimm mínútum fyrir leikslok. Brasilíska liðið steig hinsvegar upp á lokametrunum og vann að lokum nauman 2 marka sigur.

Alexandra Nascimento var atkvæðamest í brasilíska liðinu með sex mörk en í serbneska liðinu var Dragana Cvijic markahæst með fimm mörk.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×