Handbolti

Serbía auðveldlega í úrslitaleikinn á HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Serbar sýndu styrk sinn í kvöld með því að vinna sannfærandi sigur á Pólverjum í undanúrslitum HM kvenna í handbolta sem fram fer í Serbíu. Serbía sló út heimsmeistara Noregs á miðvikudagskvöldið og fylgdi því eftir með því að vinna sex marka sigur á Póllandi í kvöld, 24-18.

Serbía hefur aldrei áður komist í úrslitaleikinn á HM kvenna en höfðu best náð bronsinu á HM 20091. Pólland var aftur á móti búið að bæta sinn besta árangur með því að komast í undanúrslitin en þær pólsku áttu aldrei möguleika í kvöld.

Katarina Tomasevic var frábær í marki Serba en hún varði 17 skot eða 55 prósent af þeim skotum sem komu á hana. Hún var að sjálfsögðu valin maður leiksins í leikslok. Andrea Lekić skoraði átta mörk fyrir Serba og línumaðurinn öflugi Dragana Cvijić var með fimm mörk.

Sigur Serbíu var aldrei í hættu og þjálfari liðsins gat hvílt lykilmenn stóran hluta síðari hálfleiks. Serbía var átta mörkum yfir í hálfleik, 14-6, og náði mest ellefu marka forystu í seinni hálfleiknum.

Danmörk og Brasilía mætast í hinum undanúrslitaleiknum seinna í kvöld en úrslitaleikurinn fer síðan fram í Kombank-höllinni í Belgrad á sunnudaginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×