Hæg breytileg átt Guðmundur Andri Thorsson skrifar 14. janúar 2013 06:00 Maður heyrir stundum í útvarpinu auglýsingar frá Mjólkursamsölunni um svonefndan "góðost". Þær eru athyglisverður vitnisburður um ríkjandi hugarfar. Þetta eru auglýsingar ættaðar úr landi hinnar fúlskeggjuðu heimsafneitunar í lopapeysu, ætlað að höfða til Bjarts í Sumarhúsum. Þar má til dæmis heyra einn af föstum veðurfréttalesurum Ríkisútvarpsins segja okkur að góðostur sé jafn íslenskur og hæg breytileg átt (minnir mig) og sannast þá loks texti Bógómíls Font: Veðurfræðingar ljúga. Þannig eru þessar ostaauglýsingar: fundin eru sérviskuleg fyrirbæri sem hvergi eru talin til nema á Íslandi (eins og veðurfréttir í útvarpinu) og vekja með flestum heldur notalega kennd um sérstöðu sem kannski er púkó en samt okkar og þar með eitthvað svo ágæt – og síðan er þessum "góðosti" skeytt við það. Hann er boðflenna í ánægjumenginu. Kannski snúast auglýsingar alltaf um slíkan átroðning – sífellt að leitast við að smeygja sér inn á gleðimót og láta sem það sé á sínum vegum ("Við færum ykkur jólin")."Spakhettur með saxbauta" Fátt við því að segja. En þessar auglýsingar eru sem sé athyglisverðar. Téður "góðostur" er nefnilega álíka íslenskur og spagettí. Það mætti allt eins hugsa sér auglýsingu þar sem talað væri um "spakhettur – jafn íslenskar og slabbið", og svo fengi Hveitisamsala Ríkisins einkaleyfi á því að búa til hveitilengjur undir þessu nafni og framleiddi auglýsingar með haddprúðum konum og síðskeggjuðum körlum í lopapeysum að slafra í sig þjóðlegum spakhettum með saxbauta? Nafnið "góðostur" er nýtt. Um árabil hefur osturinn heitið "Gouda"-ostur án þess að landsmenn hafi kippt sér upp við það. Þessi guli ostur unninn úr kúamjólk er kenndur við hollensku borgina Gouda, enda upprunninn þar. Herferð Mjólkursamsölunnar um að telja okkur neytendum trú um að þessi ostur sé á einhvern máta séríslenskur er vitnisburður um ríkjandi þjóðernishyggju sem markvisst er alið á, og visst áhyggjuefni því að eins og við vitum hefur þjóðernishyggjan löngum verið skálkaskjól eignamanna sem nota hana til að gefa forréttindum sínum lögmæti. Við vitum að auglýsingar segja ekki beinlínis satt nema þá ef til vill með því að segja ósatt. En hér er um að ræða óvenju blygðunarlaus ósannindi – það er ekkert séríslenskt við "góðost" – og í öðru lagi er þessi ostur ekki nærri því jafn góður og sá evrópski ostur sem hann dregur dám af. Það vita allir; og Mjólkursamsalan veit það líka. Hún er hins vegar að reyna að gera það að þjóðlegri dyggð að telja sér trú um að "góðostur" sé betri eða kannski öllu heldur réttari en innfluttur "útlenskur" og "óhreinn" ostur. Það er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni að logið sé í auglýsingum en hitt er verra: að Mjólkursamsalan telji jarðveg fyrir slíka ímyndun.Nú andar suðrið sæla? Markaðsmennirnir virðast halda að íslenskum neytendum finnist eymennska vera dyggð, sækist eftir einangruninni, vilji íslenskan varning fremur en evrópskan, vilji höft; telji íslensku vatnsskinkuna hæfa þessari þjóð betur en danska eða spænska skinku. Er kannski svo komið hugarástandi landsmanna að þeir séu andvígir frjálsri verslun við Evrópulönd og vilji að einokunarfyrirtækin íslensku sjái bara um þetta allt saman, og verðleggi að vild sinni? Kannski. En í rauninni er ósköp fátt sér- eða alíslenskt, og vandséð hvers vegna slíkt ætti að vera eftirsóknarvert. Þorrablótið var fundið upp í Naustinu seint á 20. öld. Lopapeysan er frá sömu öld og mynstrin bera vitni um hugkvæmni snjallra handverkskvenna við að flytja inn áhrif frá öðrum löndum. Annað prýðisdæmi er rímnahefðin gamla sem okkur finnst vera þjóðlegust alls: hún verður til við samruna enskrar ljóðahefðar og suðurevrópskra frásagnarkvæða við heiðið ljóðmál hér á landi svo að úr verður eitthvað alveg sérstakt. Jónas Hallgrímsson þurfti að vera í Kaupmannahöfn til að hefja sig upp fyrir doðann á Íslandi og koma auga á það farsælda frón sem hér væri þrátt fyrir allt og læra að gera sonnettur á borð við Ég bið að heilsa. Og þannig getum við gengið á röðina hvað varðar listgreinar og verkmenningu og almenn þjóðþrif; alger einangrun Íslands hefur alltaf leitt til stöðnunar og deyfðar, skapað vítahring fátæktar og úrræðaleysis og þjóðin verið ofurseld fámennri yfirstétt sem hefur makað krókinn, ekki síst með einokunaraðstöðu við að selja fólki nauðþurftir. Þegar Ísland hefur hins vegar verið opið fyrir menningarlegum áhrifum og átt í frjálsum viðskiptum við nágrannaþjóðir hefur myndast frjósamur jarðvegur hér á landi fyrir hugkvæmni á öllum sviðum og lífskjör hafa batnað; sem er ekki skrítið vegna þess að hér er gott að búa, sé allt með felldu. Gouda-osturinn er lostæti, enda er hann jafn útlenskur og hæg breytileg átt. Er hún ekki best? Hæg og breytileg? Og utan koma vindarnir góðu og færa okkur fræ og vængjaþyt í mildum þey en vindurinn sem við framleiðum sjálf og leysum getur orðið æði fúll. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun Rétt tímasetning skiptir öllu máli Ole Anton Bieltvedt Skoðun Að vera með BRCA-stökkbreytingu Brynja Rún Sævarsdóttir Skoðun Hvernig þjóð viljum við vera? Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir Skoðun Heimur hins sterka og óvissan framundan Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Opið bréf til foreldra í Stakkaborg Jónína Einarsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Tillaga um endurskoðun á virðisaukaskattskerfi deilihagkerfisins Þórir Garðarsson Skoðun
Maður heyrir stundum í útvarpinu auglýsingar frá Mjólkursamsölunni um svonefndan "góðost". Þær eru athyglisverður vitnisburður um ríkjandi hugarfar. Þetta eru auglýsingar ættaðar úr landi hinnar fúlskeggjuðu heimsafneitunar í lopapeysu, ætlað að höfða til Bjarts í Sumarhúsum. Þar má til dæmis heyra einn af föstum veðurfréttalesurum Ríkisútvarpsins segja okkur að góðostur sé jafn íslenskur og hæg breytileg átt (minnir mig) og sannast þá loks texti Bógómíls Font: Veðurfræðingar ljúga. Þannig eru þessar ostaauglýsingar: fundin eru sérviskuleg fyrirbæri sem hvergi eru talin til nema á Íslandi (eins og veðurfréttir í útvarpinu) og vekja með flestum heldur notalega kennd um sérstöðu sem kannski er púkó en samt okkar og þar með eitthvað svo ágæt – og síðan er þessum "góðosti" skeytt við það. Hann er boðflenna í ánægjumenginu. Kannski snúast auglýsingar alltaf um slíkan átroðning – sífellt að leitast við að smeygja sér inn á gleðimót og láta sem það sé á sínum vegum ("Við færum ykkur jólin")."Spakhettur með saxbauta" Fátt við því að segja. En þessar auglýsingar eru sem sé athyglisverðar. Téður "góðostur" er nefnilega álíka íslenskur og spagettí. Það mætti allt eins hugsa sér auglýsingu þar sem talað væri um "spakhettur – jafn íslenskar og slabbið", og svo fengi Hveitisamsala Ríkisins einkaleyfi á því að búa til hveitilengjur undir þessu nafni og framleiddi auglýsingar með haddprúðum konum og síðskeggjuðum körlum í lopapeysum að slafra í sig þjóðlegum spakhettum með saxbauta? Nafnið "góðostur" er nýtt. Um árabil hefur osturinn heitið "Gouda"-ostur án þess að landsmenn hafi kippt sér upp við það. Þessi guli ostur unninn úr kúamjólk er kenndur við hollensku borgina Gouda, enda upprunninn þar. Herferð Mjólkursamsölunnar um að telja okkur neytendum trú um að þessi ostur sé á einhvern máta séríslenskur er vitnisburður um ríkjandi þjóðernishyggju sem markvisst er alið á, og visst áhyggjuefni því að eins og við vitum hefur þjóðernishyggjan löngum verið skálkaskjól eignamanna sem nota hana til að gefa forréttindum sínum lögmæti. Við vitum að auglýsingar segja ekki beinlínis satt nema þá ef til vill með því að segja ósatt. En hér er um að ræða óvenju blygðunarlaus ósannindi – það er ekkert séríslenskt við "góðost" – og í öðru lagi er þessi ostur ekki nærri því jafn góður og sá evrópski ostur sem hann dregur dám af. Það vita allir; og Mjólkursamsalan veit það líka. Hún er hins vegar að reyna að gera það að þjóðlegri dyggð að telja sér trú um að "góðostur" sé betri eða kannski öllu heldur réttari en innfluttur "útlenskur" og "óhreinn" ostur. Það er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni að logið sé í auglýsingum en hitt er verra: að Mjólkursamsalan telji jarðveg fyrir slíka ímyndun.Nú andar suðrið sæla? Markaðsmennirnir virðast halda að íslenskum neytendum finnist eymennska vera dyggð, sækist eftir einangruninni, vilji íslenskan varning fremur en evrópskan, vilji höft; telji íslensku vatnsskinkuna hæfa þessari þjóð betur en danska eða spænska skinku. Er kannski svo komið hugarástandi landsmanna að þeir séu andvígir frjálsri verslun við Evrópulönd og vilji að einokunarfyrirtækin íslensku sjái bara um þetta allt saman, og verðleggi að vild sinni? Kannski. En í rauninni er ósköp fátt sér- eða alíslenskt, og vandséð hvers vegna slíkt ætti að vera eftirsóknarvert. Þorrablótið var fundið upp í Naustinu seint á 20. öld. Lopapeysan er frá sömu öld og mynstrin bera vitni um hugkvæmni snjallra handverkskvenna við að flytja inn áhrif frá öðrum löndum. Annað prýðisdæmi er rímnahefðin gamla sem okkur finnst vera þjóðlegust alls: hún verður til við samruna enskrar ljóðahefðar og suðurevrópskra frásagnarkvæða við heiðið ljóðmál hér á landi svo að úr verður eitthvað alveg sérstakt. Jónas Hallgrímsson þurfti að vera í Kaupmannahöfn til að hefja sig upp fyrir doðann á Íslandi og koma auga á það farsælda frón sem hér væri þrátt fyrir allt og læra að gera sonnettur á borð við Ég bið að heilsa. Og þannig getum við gengið á röðina hvað varðar listgreinar og verkmenningu og almenn þjóðþrif; alger einangrun Íslands hefur alltaf leitt til stöðnunar og deyfðar, skapað vítahring fátæktar og úrræðaleysis og þjóðin verið ofurseld fámennri yfirstétt sem hefur makað krókinn, ekki síst með einokunaraðstöðu við að selja fólki nauðþurftir. Þegar Ísland hefur hins vegar verið opið fyrir menningarlegum áhrifum og átt í frjálsum viðskiptum við nágrannaþjóðir hefur myndast frjósamur jarðvegur hér á landi fyrir hugkvæmni á öllum sviðum og lífskjör hafa batnað; sem er ekki skrítið vegna þess að hér er gott að búa, sé allt með felldu. Gouda-osturinn er lostæti, enda er hann jafn útlenskur og hæg breytileg átt. Er hún ekki best? Hæg og breytileg? Og utan koma vindarnir góðu og færa okkur fræ og vængjaþyt í mildum þey en vindurinn sem við framleiðum sjálf og leysum getur orðið æði fúll.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun