Kári Kristján Kristjánsson segist hafa spilað með íslenska landsliðinu gegn Slóveníu á miðvikudagskvöldið í góðri trú, enda hafi hann fengið leyfi frá læknum Wetzlar til að taka sig af sjúkralista félagsins. Svo virðist hins vegar að það hafi ekki verið gert og að nú standi orð gegn orði.
Wetzlar sagði upp samningi Kára strax daginn eftir leik. Það kom línumanninum sterka í opna skjöldu og kippti strákunum öllum niður á jörðina eftir frækilegan sigur í Slóveníu, þar sem Kári var í lykilhlutverki á lokamínútunum.
„Vinnubrögðin hjá Wetzlar í þessu máli eru gjörsamlega fáránleg og óskiljanleg," sagði landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann segir enn fremur að enginn frá HSÍ hefði heyrt neitt frá Wetzlar um að hann mætti ekki spila.
„Ekki orð. Ég var búinn að hafa samband við öll þau félög sem eiga leikmenn í landsliðinu og biðja um að fá þá lausa á ákveðnum tímum. Ef félög vilja setja sig upp á móti því verða þau að hafa samband. Það var ekki gert," segir hann.
Svo virðist sem mönnum beri ekki saman um málavexti. Kári segir að hann hafi verið skráður á sjúkralista Wetzlar til 4. apríl en fengið leyfi tveggja lækna félagsins til að flýta þeirri dagsetningu um tvo daga. Til grundvallar lá læknisskoðun hjá íslenska landsliðinu þar sem Kári var metinn leikfær.
„Ég fékk mjög skýrt svar frá tveimur læknum Wetzlar. Þeir sögðu báðir já," sagði Kári við Fréttablaðið. „Ég stóð við mitt og sinnti tilkynningaskyldunni. Viðbrögðin komu mér svo algjörlega í opna skjöldu – annars væri ég ekki að segja mína hlið málsins."
Kári er byrjaður að skoða sína stöðu í samstarfi við HSÍ og lögfræðinga og umboðsmenn í Þýskalandi. Málið er því á viðkvæmu stigi og gæti reynst fordæmisgefandi fyrir öll landslið handboltaheimsins, eftir því sem Aron segir.
„Ef félög hafa völd til að halda mönnum á sjúkralista þó svo að þeir séu leikfærir er alþjóðlegur handbolti í mikilli hættu. Kári var að koma til baka eftir erfiða aðgerð þar sem æxli var fjarlægt úr baki hans. Hann hafði lagt hart að sér til að ná heilsu og reynist svo í lagi fyrir mikilvægan landsleik, þar sem hann stendur sig vel. Svo fær hann þessa tusku í andlitið. Mér finnst mjög skrýtin lykt af þessu máli."
Gæti reynst fordæmisgefandi
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið







Real Madrid vill fara í viðræður við Liverpool um Trent
Enski boltinn


Valdi fjórar verstu hornspyrnur ÍBV: „Þessi var helvíti slæm“
Íslenski boltinn

Ráðherra bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar
Enski boltinn
Fleiri fréttir
