Handbolti

Þurfti að semja við bankann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stórskyttan skartar öflugri hárgreiðslu.
Stórskyttan skartar öflugri hárgreiðslu. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
„Maður hefur þurft að semja við bankann um að fá að greiða greiðslukortareikninginn seinna. Maður getur huggað sig við það að einhvern tímann kemur peningurinn. Þeir borga alltaf þótt það komi seint,“ segir landsliðsmaðurinn Rúnar Kárason. Auk Rúnars leikur Sverre Jakobsson með liðinu.

Andrúmsloftið þungt

„Það passar. Við æfðum ekki á föstudaginn. Við höfum beðið í langan tíma eftir því að fá greidd laun og andrúmsloftið í klefanum er þungt,“ segir Sverre Jakobsson fyrirliði Grosswallstadt í samtali við þýska fjölmiðla.

Leikmenn Grosswallstadt lögðu niður æfingu á föstudaginn að frumkvæði þýsku goðsagnarinnar Peters Meisinger sem stýrði æfingu liðsins á fimmtudeginum.

„Þegar hann frétti af því sagði hann okkur að þetta gæti ekki haldið áfram að menn æfðu eins og óðir menn en fengju þetta alltaf í bakið á sér,“ segir Rúnar. Meisinger, sem er íþróttastjóri hjá félaginu, var ekki meðvitaður um óánægju leikmanna með vangoldin laun. Meisinger, sem er einn besti leikmaður Þýskalands frá upphafi og goðsögn hjá Grosswallstad, sagði leikmönnum að taka sér frí á föstudag og laugardag.

Mikilvægur leikur framundan

„Sjáumst á sunnudaginn og undirbúum okkur vel fyrir leikinn,“ segir Rúnar og vitnar í Meisinger. Annað kvöld mætir Grosswallstadt liði TV 1893 Neuhausen í botnbaráttuslag. Bæði lið hafa ellefu stig og sitja í fallsæti.

„Við vildum ekki eyðileggja undirbúning okkar fyrir leikinn mikilvæga gegn Neuhausen. Þess vegna ákváðum við að láta skoðun okkar í ljós á föstudaginn,“ segir Sverre. Grosswallstadt vann 27-22 útisigur á Essen í síðasta leik sínum en það var fyrsti sigurleikur liðsins frá því í byrjun febrúarmánuðar.

„Við höfum verið að horfa á þennan maímánuð þar sem eru leikir sem við eigum að vinna,“ segir Rúnar. „Við þurfum að vinna þrjá leiki til að komast á öruggt svæði,“ sem segir leikmenn vel stemmda miðað við aðstæður.

Engin kjörstaða

„Á móti kemur að það er engin kjöraðstaða að vera að berjast fyrir lífi sínu og vera á sama tíma að skrimta þegar ég á að hafa efni á góðu og þægilegu lífi,“ segir Rúnar sem vonast til að gengið verði frá greiðslum sem fyrst til að friða leikmannahópinn. „Ég er ekkert brjálæðislega bjartsýnn á að það gerist,“ segir stórskyttan.

Framkvæmdastjóri Grosswallstadt, Gudi Heerstrass, segir í viðtali við Westfälische Nachrichten að launagreiðslur hafi dregist. Leikmenn geti þó reiknað með því að fá launin á réttum tíma.

„Framkvæmdastjórinn hefur reynt að fegra þetta og segja að þetta hafi bara verið einn mánuður. Það er argasta vitleysa,“ segir Rúnar. Greiðslum hafi seinkað um mánuð strax síðastliðið haust og svo aftur um mánuð um daginn. Heerstrass hafi sagst ætla að leggja laun inn á reikninginn en það hafi hann ekki gert þegar til kastanna kom.

Rúnar sleit krossband í hné á landsliðsæfingu síðastliðið sumar en byrjaði að spila aftur í febrúar.

„Ég finn að snerpan er svo gott sem komin. Maður er samt fljótur að stífna upp í hnénu. Heilt yfir gengur þó mjög vel.“

Rúnar hefur skorað 40 mörk í 10 leikjum á tímabilinu og er því með fjögur mörk að meðaltali í leik. Hann skoraði 3,2 mörk að meðaltali með Bergischer HC í fyrra.

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.


Tengdar fréttir

Fá ekki greidd laun

"Það passar. Við æfðum ekki á föstudaginn. Við höfum beðið í langan tíma eftir því að fá greidd laun og andrúmsloftið í klefanum er þungt," segir Sverre Jakobsson fyrirliði Grosswallstadt.

Framkvæmdastjórinn reynt að fegra hlutina

"Það hefur verið launaseinkun í allan vetur þannig að þetta er ekkert nýtt af nálinni," segir handknattleiksmaðurinn Rúnar Kárason hjá Grosswallstadt í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×