Handbolti

Hefði verið gaman að fá að dæma á Ólympíuleikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur ræðir hér við Stellu Sigurðardóttur, leikmann Fram.
Hlynur ræðir hér við Stellu Sigurðardóttur, leikmann Fram. Fréttablaðið/Daníel
Hlynur Leifsson og Anton Gylfi Pálsson munu dæma undanúrslitaleik Barcelona og Kielce í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Leikurinn fer fram í Köln um mánaðamótin en þar fer fram úrslitahelgin í Meistaradeildinni ár hvert.

„Þetta verður hörkuleikur og það er mikill heiður að fá þetta verkefni,“ segir Hlynur, sem tilkynnti á dögunum að hann myndi hætta í dómgæslu í lok tímabilsins. Líklega verður þetta hans næstsíðasti leikur því hann mun væntanlega dæma landsleik í næsta mánuði.

Hlynur segist hafa verið hvattur til að endurskoða ákvörðun sína um að hætta. Hann stendur hins vegar við sitt. „Ég var búinn að velta þessu lengi fyrir mér. Það er einfaldlega of mikið að vera í burtu í allt að tvo mánuði á ári þegar maður er með fjölskyldu og í vinnu,“ segir Hlynur en hann hefði getað dæmt í sjö ár í viðbót.

„Það hefði verið gaman að dæma á Ólympíuleikum en það er fleira í lífinu en handbolti. Nú fær Anton tíma til að byggja sig upp með nýjum félaga og vonandi komast þeir á leikana í Ríó eftir þrjú ár.“

Kiel og Hamburg eigast við í hinni undanúrslitaviðureigninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×