Handbolti

Ljónin hans Gumma nældu í gullið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Þórður faðmar Oliver Roggisch að sér.
Guðmundur Þórður faðmar Oliver Roggisch að sér. Nordicphotos/Getty

Rhein-Neckar Löwen undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar vann á sunnudaginn EHF-bikarinn eftir 26-24 sigur á Nantes í Frakklandi. Titillinn er sá fyrsti sem félagið vinnur í ellefu ára sögu þess. Stefán Rafn Sigurmannsson fékk gullverðlaun í afmælisgjöf.

 „Rhein-Neckar Löwen hefur verið nálægt þessu svo oft áður. Árum saman hefur liðið barist um titla, komist í undanúrslit eða tapað í úrslitum. En aldrei kom gullið fyrr en nú,“ segir þjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson kampakátur.

Hann segir úrslitaleikinn hafa verið afar erfiðan enda aðstæður sérstakar.

„Við vorum auðvitað að spila úrslitaleik á útivelli,“ segir Guðmundur en leikurinn fór fram á heimavelli franska liðsins sem Gunnar Steinn Jónsson leikur með. Guðmundur segir gulklædda heimamenn hafa spilað afar fast og komist upp með það á köflum.

„Við lögðum upp með það að halda ró okkar og láta mótlætið ekki trufla okkur,“ segir Guðmundur. Hann viðurkennir að það hafi verið sérstök tilfinning að fagna titli frammi fyrir stútfullri höll af stuðningsmönnum Nantes.

„Það var blístrað á okkur þegar við fögnuðum en maður var svo upptekinn í gleðinni að maður hugsaði ekki um það. Fólkið stóð þó upp í lokin og klappaði fyrir okkur.“

Mögnuð endurkoma
Svo virðist sem Alexander Petersson hafi reynt að hlífa öxl sinni þegar hann handlék bikarinn.Nordicphotos/Getty

Guðmundur játar því að sigurinn hafi mikla þýðingu fyrir sig persónulega. Það sé mikill heiður að vera þjálfarinn sem skilar langþráðum titli til félagsins.

„Mér tókst að ná silfri á Ólympíuleikunum 2008 með landsliðinu sem var stórkostlegt. Svo nældum við í brons á Evrópumótinu 2010. Nú má segja að gullið sé komið,“ segir Guðmundur stoltur. Hann minnir á að nú séu aðeins tvær Evrópukeppnir líkt og í fótboltanum, Meistaradeildin og EHF-bikarinn. Liðið hafi spilað tólf leiki á leið sinni í keppninni sem bætist við fjörutíu leiki sem liðið spili í deild og bikar. Evrópuleikirnir hafi tekið sinn toll.

„Þessi keppni hefur kostað okkur þrjá með mjög alvarleg meiðsli,“ segir Guðmundur. Tveir leikmenn hafi slitið krossband auk þess sem hornamaðurinn Uwe Gensheimer sleit hásin í vetur. Meiðsli Gensheimer urðu til þess að Guðmundur fékk Stefán Rafn Sigurmannsson til Ljónanna.

Óhætt er að segja að frammistaða Stefáns, sem einmitt fagnaði 23 ára afmæli sínu á sunnudaginn, hafi farið fram úr björtustu vonum.

„Hann hefur staðið sig frábærlega og brúað bilið á meðan Gensheimer var frá,“ segir Guðmundur. Stefán skoraði eitt mark í leiknum og Alexander Petersson tvö.

Gensheimer kom inn í leikmannahóp Löwen fyrir úrslitahelgina í Nantes. Ljónin lögðu Göppingen að velli í undanúrslitum á laugardag og unnu svo sigur í úrslitaleiknum 24 tímum síðar.

„Gemsheimer átti einhverja mögnuðustu endurkomu sem ég hef orðið vitni að,“ segir Guðmundur um hornamanninn. Gensheimer skoraði fimm mörk á tíu mínútum gegn Göppingen. Í úrslitaleiknum skoraði hann tíu mörk á 21. mínútu.

„Það var magnað að fylgjast með frammistöðu hans eftir að hafa verið frá í sex mánuði vegna hásinarslits.“

Verður kátt í höllinni
Leikmenn Löwen fagna sigrinum í Nantes.Nordicphotos/Getty

Guðmundur og félagar flugu heim til Þýskalands strax um kvöldið. Hann segir leikmenn hafa fengið leyfi til að fagna sigrinum vel, góð stemning hafi verið í flugvélinni og leikmenn svo haldið áfram í Mannheim um nóttina.

„Þeir skemmtu sér örugglega margir fram á morgun,“ segir Guðmundur. Hann hafi hins vegar farið í rúmið eins fljótt og færi gafst enda uppgefinn eftir helgina.

Ljónin sitja í 2. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Þrjú efstu sætin gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Lokaleikurinn fer fram í Mannheim þann 8. júní. Þá verður slegið upp mikilli veislu.

„Það verður mikil sigurhátíð í höllinni okkar sem 13.200 áhorfendur munu fylla,“ segir Guðmundur.


Tengdar fréttir

Evrópumeistaratitill í afmælisgjöf

Alexander Petersson, Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Rhein-Neckar Löwen urðu í dag Evrópumeistarar í handknattleik eftir 26-24 sigur á Nantes í úrslitaleik EHF-bikarsins í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×