Handbolti

Allt lélegt hjá okkur

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Karen Kjartansdóttir, leikstjórnandi íslenska liðsins, var næstmarkahæst í íslenska liðinu en skoraði samt bara tvö mörk. Ísland skoraði aðeins níu mörk úr opnu spili í leiknum en átta úr vítaköstum.
Karen Kjartansdóttir, leikstjórnandi íslenska liðsins, var næstmarkahæst í íslenska liðinu en skoraði samt bara tvö mörk. Ísland skoraði aðeins níu mörk úr opnu spili í leiknum en átta úr vítaköstum. Fréttablaðið/Vilhelm

Ísland tapaði með 12 marka mun, 29-17, fyrir Tékklandi í fyrri leik þjóðanna í umspili um laust sæti á heimsmeistaramóti kvenna, sem leikið verður í Serbíu í desember. Eins og tölurnar gefa til kynna þá gekk fátt upp.

„Það gekk eiginlega ekkert upp. Það klikkaði allt sem gat klikkað og það gekk líka eiginlega allt upp hjá þeim,“ sagði Karen Knútsdóttir, leikstjórnandi Íslands, eftir leikinn.

„Við skutum illa á markvörðinn og skutum mikið í stöng og slá. Ég veit ekki hvort við höfum ætlað okkur of mikið. Við lendum á vegg í byrjun og látum brjóta okkur aðeins niður. Við styttum sóknirnar og fáum hraðaupphlaup í bakið,“ sagði Karen.

Lítið sem ekkert gekk í sókninni og ekki hjálpaði til að langflestum sóknum Tékklands lauk með góðu færi og eina hraðaupphlaupið sem Ísland fékk í leiknum var varið. „Það var allt lélegt sem gat verið lélegt. Vörnin var léleg, markvarslan léleg og það vantaði sjálfstraust í sóknina. Það var lítill hraði í sóknarleiknum. Við þurfum bara að ná að keyra upp hraðann. Við vorum of hægar í leiknum.“

„Við vorum fullfljótar að hengja haus. Ég veit ekki hvort spennustigið hafi verið of hátt í byrjun. Hvar sem er litið var allt lélegt en um leið og trúin og baráttan kemur þá er hægt að bæta ótrúlega margt en að fara með 12 mörk út, við erum með bakið upp við vegg,“ sagði Karen sem hefur þó enn fulla trú á því að Ísland geti tryggt sér sætið á HM.

„Þær unnu okkur með tólf mörkum og við getum alveg unnið þær með tólf. Þetta er ekkert mikið betra lið en við,“ sagði Karen, sem kvíðir því ekki að þurfa að sitja langa myndbandsfundi þar sem farið verður ítarlega yfir leikinn.

„Það verður örugglega erfitt að sitja þessa fundi sem eru fram undan en Einar (Jónsson) og Gústi (Ágúst Jóhannsson) eru snillingar í að leikgreina lið og ég hef enga trú á öðru en að við finnum lausn á þessu en þetta liggur mest hjá hverjum og einum manni. Við eigum mjög mikið inni,“ sagði Karen að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×