Brenndur Bismark Guðmundur Andri Thorsson skrifar 10. júní 2013 09:02 Einhver tiltekin iðja verður í sjálfu ekki góð eða réttmæt við það eitt að vera kennd við list – og svo sem ekki heldur vond eða ómerkileg. List er ekki stjórnmálaflokkur. Hún er ekki trúarsamfélag og starfar ekki eftir fundasamþykktum. Listamenn geta verið íhaldssamir, nýjungagjarnir, vinalegir, andstyggilegir, frumlegir, andlausir; alls konar. Hvað er list? Ég man það ekki en hún er undursamleg þegar maður rekst á hana. Hún vitnar um þörf mannsins til að grípa andann á lofti – í bókstaflegri merkingu. Hún er viðleitni til að skapa eitthvað sem hefur notagildi sitt fólgið í sjálfu sér. Hún er nýtt samhengi gamalkunnra hluta eða viðtekinna hugmynda. Hún er opnun á skilningarvitunum. Hún er þráin eftir nýrri sýn. Hún er leitin að uppljómun.Leitin að uppljómun Eftir árþúsunda dvöl á jörðinni er maðurinn enn að klóra sér í hausnum og spyrja: Hvað er ég eiginlega að gera hérna? Til hvers er ég eiginlega? Menn leita svara í vísindum og trúarbrögðum og öðru grufli kringum grunsemdir um að fleira sé til undir sólinni en það sem við skiljum; og listum: við njótum listar og eitthvað kann að renna upp fyrir okkur, eitthvað fyllir hugann nýjum eða gamalkunnum kenndum og formum. Hvað er list? Hún er tiltekin viðleitni mannanna til að reyna að fást við heiminn og sig í heiminum; Hún er leit að formi og merkingu og samhengi og listamenn leitast við að leiða í ljós einhvern sannleika, helst með sláandi hætti, sem breyti sýn þeirra sjálfra og hinna sem njóta á veruleikann. Hún er tilraun til að „ná í skottið á eldingunni“, eins og einhver sagði. List er ekki góð eða slæm í sjálfu sér. Listaverk geta hins vegar góð eða slæm, vel heppnuð eða ómerkileg – svo sem ekki neitt neitt, eða ævintýri. Margir telja að listamönnum beri fyrst og fremst að „reyna á mörkin“; en slík markaáreynsla er sennilega nokkuð ofmetin iðja. Til eru listamenn sem líta á list sína sem nokkurs konar jaðaríþrótt, til þess fallna að kanna þolmörk leiðindanna sem hljótast af endurtekningu þar sem verið er að reyna á mörk hins óbærilega og vinna með rými leiðindanna. Listamenn geta vissulega lent í því að fara yfir einhver mörk hins ásættanlega í leit sinni að uppljómun en það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að starfa á slíkum mörkum því þá missa listamennirnir sjónar á öðrum mikilsverðum atriðum. Sumt er einfaldlega rangt að gera, út frá siðferðilegum mælikvörðum sem við höfum komið okkur saman um, og gildir þá einu þótt athæfið sé kennt við list. Listamaðurinn Santiago Sierra kann að þykja sniðugur í sumum stöðum en iðja hans hefur á köflum verið siðferðislega ámælisverð, hvað sem líður réttlætingum hans: hann kaupir aðgang að fólki til að mótmæla kapítalismanum, niðurlægir fólk til að benda á að fólk sé niðurlægt. Meðal annars þess vegna finnst mér alltaf óþægilegt að ganga fram hjá grjótinu hans á Austurvelli – sem ætti að heita Sundurlyndisfjandinn. Frá því stafar óþægilegri orku sem ég er viss um að á sinn þátt í því hve þingmennirnir okkar eru skrítnir og þrasgjarnir.Bismarck var hér Svipuðu máli gegnir um þennan þýska skrattakoll, Von Bismarck. Hvernig sem kann að vera háttað aðild hans að hinum kjánalegu og frámunalega ljótu spellvirkjum í Mývatnssveit – hann gengst ekki við því að hafa sjálfur graffað þetta – þá eru þau til vitnis um eitt af mest þreytandi einkennum sumra nútímalistamanna, sem er sú árátta að merkja sér staði, eins og fresskettir gera; „setja mark sitt“ á svæði sem fram að því hafa verið í friði fyrir slíkum signatúrum. Maður hefur séð tilhneigingu til að bera blak af þessum vandalisma með því að benda á að Kárahnjúkavirkjun hafi verið margfalt verri náttúruspjöll. Að vísu, en á ég þá að fingurbrjóta mann og benda svo á að ég hafi þó að minnsta kosti ekki myrt hann? Aðrir hafa sett á tölur um að Íslendingar séu sóðar, sem eflaust má til sanns vegar færa en er varla mosanum að kenna sem slitinn var upp. Von Bismarck segir að þessar merkingar sem hann setti séu náttúrunni sjálfri óviðkomandi, það að kalla eitthvað mosa eða hraun sé mannlegt athæfi, menningarlegt, fuglarnir sjái ekki stafina og svo framvegis: en til að koma á framfæri þeirri lítilsigldu athugun þurfi samt að eyðileggja mosa sem vex ekki aftur í bráð, fyrir utan það að leggja undir sig „rýmið“, gera það menningarlegt, að hverju öðru stórborgarkrassi. Íslensk náttúra vekur sterkar tilfinningar í brjósti fólks. Margir líta á hana sem helgidóm sem ekki megi undir nokkrum kringumstæðum gera annað en að tipla hvíslandi umhverfis. Það er náttúrlega heldur langt gengið – en líka hitt að hlutverk okkar á þessari jörð sé umfram allt að rótast í henni og djöflast til að búa til skjótfenginn gróða svo að hægt sé að halda áfram að veðsetja skýjaborgir. Hvað sem því líður er gjörningavæðing ólíklegustu hluta að verða nokkurt áhyggjuefni – nú síðast var Sjostakovich spilaður á Listahátíð eins og um gjörning væri að ræða af þeirri sortinni sem snýst um að „kanna þolmörk“ fremur en að njóta listar. Kannski að við ættum að lýsa náttúru Íslands gjörningafrítt svæði? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun Rétt tímasetning skiptir öllu máli Ole Anton Bieltvedt Skoðun Að vera með BRCA-stökkbreytingu Brynja Rún Sævarsdóttir Skoðun Hvernig þjóð viljum við vera? Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir Skoðun Heimur hins sterka og óvissan framundan Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Opið bréf til foreldra í Stakkaborg Jónína Einarsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Tillaga um endurskoðun á virðisaukaskattskerfi deilihagkerfisins Þórir Garðarsson Skoðun
Einhver tiltekin iðja verður í sjálfu ekki góð eða réttmæt við það eitt að vera kennd við list – og svo sem ekki heldur vond eða ómerkileg. List er ekki stjórnmálaflokkur. Hún er ekki trúarsamfélag og starfar ekki eftir fundasamþykktum. Listamenn geta verið íhaldssamir, nýjungagjarnir, vinalegir, andstyggilegir, frumlegir, andlausir; alls konar. Hvað er list? Ég man það ekki en hún er undursamleg þegar maður rekst á hana. Hún vitnar um þörf mannsins til að grípa andann á lofti – í bókstaflegri merkingu. Hún er viðleitni til að skapa eitthvað sem hefur notagildi sitt fólgið í sjálfu sér. Hún er nýtt samhengi gamalkunnra hluta eða viðtekinna hugmynda. Hún er opnun á skilningarvitunum. Hún er þráin eftir nýrri sýn. Hún er leitin að uppljómun.Leitin að uppljómun Eftir árþúsunda dvöl á jörðinni er maðurinn enn að klóra sér í hausnum og spyrja: Hvað er ég eiginlega að gera hérna? Til hvers er ég eiginlega? Menn leita svara í vísindum og trúarbrögðum og öðru grufli kringum grunsemdir um að fleira sé til undir sólinni en það sem við skiljum; og listum: við njótum listar og eitthvað kann að renna upp fyrir okkur, eitthvað fyllir hugann nýjum eða gamalkunnum kenndum og formum. Hvað er list? Hún er tiltekin viðleitni mannanna til að reyna að fást við heiminn og sig í heiminum; Hún er leit að formi og merkingu og samhengi og listamenn leitast við að leiða í ljós einhvern sannleika, helst með sláandi hætti, sem breyti sýn þeirra sjálfra og hinna sem njóta á veruleikann. Hún er tilraun til að „ná í skottið á eldingunni“, eins og einhver sagði. List er ekki góð eða slæm í sjálfu sér. Listaverk geta hins vegar góð eða slæm, vel heppnuð eða ómerkileg – svo sem ekki neitt neitt, eða ævintýri. Margir telja að listamönnum beri fyrst og fremst að „reyna á mörkin“; en slík markaáreynsla er sennilega nokkuð ofmetin iðja. Til eru listamenn sem líta á list sína sem nokkurs konar jaðaríþrótt, til þess fallna að kanna þolmörk leiðindanna sem hljótast af endurtekningu þar sem verið er að reyna á mörk hins óbærilega og vinna með rými leiðindanna. Listamenn geta vissulega lent í því að fara yfir einhver mörk hins ásættanlega í leit sinni að uppljómun en það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að starfa á slíkum mörkum því þá missa listamennirnir sjónar á öðrum mikilsverðum atriðum. Sumt er einfaldlega rangt að gera, út frá siðferðilegum mælikvörðum sem við höfum komið okkur saman um, og gildir þá einu þótt athæfið sé kennt við list. Listamaðurinn Santiago Sierra kann að þykja sniðugur í sumum stöðum en iðja hans hefur á köflum verið siðferðislega ámælisverð, hvað sem líður réttlætingum hans: hann kaupir aðgang að fólki til að mótmæla kapítalismanum, niðurlægir fólk til að benda á að fólk sé niðurlægt. Meðal annars þess vegna finnst mér alltaf óþægilegt að ganga fram hjá grjótinu hans á Austurvelli – sem ætti að heita Sundurlyndisfjandinn. Frá því stafar óþægilegri orku sem ég er viss um að á sinn þátt í því hve þingmennirnir okkar eru skrítnir og þrasgjarnir.Bismarck var hér Svipuðu máli gegnir um þennan þýska skrattakoll, Von Bismarck. Hvernig sem kann að vera háttað aðild hans að hinum kjánalegu og frámunalega ljótu spellvirkjum í Mývatnssveit – hann gengst ekki við því að hafa sjálfur graffað þetta – þá eru þau til vitnis um eitt af mest þreytandi einkennum sumra nútímalistamanna, sem er sú árátta að merkja sér staði, eins og fresskettir gera; „setja mark sitt“ á svæði sem fram að því hafa verið í friði fyrir slíkum signatúrum. Maður hefur séð tilhneigingu til að bera blak af þessum vandalisma með því að benda á að Kárahnjúkavirkjun hafi verið margfalt verri náttúruspjöll. Að vísu, en á ég þá að fingurbrjóta mann og benda svo á að ég hafi þó að minnsta kosti ekki myrt hann? Aðrir hafa sett á tölur um að Íslendingar séu sóðar, sem eflaust má til sanns vegar færa en er varla mosanum að kenna sem slitinn var upp. Von Bismarck segir að þessar merkingar sem hann setti séu náttúrunni sjálfri óviðkomandi, það að kalla eitthvað mosa eða hraun sé mannlegt athæfi, menningarlegt, fuglarnir sjái ekki stafina og svo framvegis: en til að koma á framfæri þeirri lítilsigldu athugun þurfi samt að eyðileggja mosa sem vex ekki aftur í bráð, fyrir utan það að leggja undir sig „rýmið“, gera það menningarlegt, að hverju öðru stórborgarkrassi. Íslensk náttúra vekur sterkar tilfinningar í brjósti fólks. Margir líta á hana sem helgidóm sem ekki megi undir nokkrum kringumstæðum gera annað en að tipla hvíslandi umhverfis. Það er náttúrlega heldur langt gengið – en líka hitt að hlutverk okkar á þessari jörð sé umfram allt að rótast í henni og djöflast til að búa til skjótfenginn gróða svo að hægt sé að halda áfram að veðsetja skýjaborgir. Hvað sem því líður er gjörningavæðing ólíklegustu hluta að verða nokkurt áhyggjuefni – nú síðast var Sjostakovich spilaður á Listahátíð eins og um gjörning væri að ræða af þeirri sortinni sem snýst um að „kanna þolmörk“ fremur en að njóta listar. Kannski að við ættum að lýsa náttúru Íslands gjörningafrítt svæði?
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Mannekla á leikskólum Rakel Björk Benediktsdóttir Borg,Margrét Edda Gnarr,Hannes Daði Haraldsson Skoðun