Handbolti

Þakklátur fyrir Ripp, Rapp og Rupp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur eftir kveðjustundina á sunnudag.
Ólafur eftir kveðjustundina á sunnudag. Mynd/Daníel
„Ég kíkti á netið og sá klippurnar. Óli er einstakur – ég held að Guðjón Valur hafi orðað það vel þegar hann sagði að það hefðu verið forréttindi að fá að spila með honum í svona mörg ár,“ sagði Patrekur Jóhannesson um kveðjuleik Ólafs Stefánssonar á sunnudagskvöld. Patrekur var sjálfur upptekinn með austurríska landsliðinu og missti því af leiknum.

„Það er svo margt sem hann sagði í gegnum árin sem maður fattaði viku, mánuðum eða jafnvel árum síðar. Við Óli og Dagur Sigurðsson vorum stundum kallaðir Ripp, Rapp og Rupp og manni þykir vænt um að hafa verið í sama teymi og hann.“

Patrekur og Ólafur munu mætast sem þjálfarar í N1-deild karla á næstu leiktíð. Patrekur verður með Hauka og Ólafur með Val en stutt er síðan Patrekur var rekinn frá Val.

„Ég er alveg búinn að afgreiða það mál og ég viss um að Óli sé rétti maðurinn fyrir liðið. Það hefur reyndar komið mér á óvart hversu marga leikmenn Valur hefur keypt því ég trúði að hann ætlaði að leyfa ungu mönnunum að spreyta sig. En ég er viss um að hann á eftir að ná frábærum árangri. Það verður ekkert skrítið að takast á við hann sem þjálfari, heldur bara gaman. Ég mun gera allt til að vinna hann, þó svo að hann sé einn af mínum betri vinum,“ segir Patrekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×