Handbolti

Evrópuævintýri geta knésett íslensk félög

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Davíð Georgsson (t.v.) og félagar í ÍR munu einbeita sér að keppnum heima fyrir á leiktíðinni. Matthías Árni og félagar ætla utan.
Davíð Georgsson (t.v.) og félagar í ÍR munu einbeita sér að keppnum heima fyrir á leiktíðinni. Matthías Árni og félagar ætla utan. Fréttablaðið/Stefán
Karlalið Hauka og kvennalið Fram verða fulltrúar Íslands í Evrópukeppnum þennan veturinn. Karlalið Fram og ÍR auk kvennaliðs Vals ákváðu að vera ekki með af fjárhagslegum ástæðum.

„Þetta hefur verið þannig hjá okkur í Haukum að við leikmenn sjáum um helming kostnaðarins og síðan sér félagið um hinn helminginn,“ segir Matthías Árni Ingimarsson, leikmaður Hauka. Hann segir mjög skemmtilega reynslu að taka þátt í Evrópukeppni. Hefðbundnar leiðir eru farnar í fjáröflun þar sem seldur verður klósettpappír, efnt til happdrættis og fiskur seldur, svo fátt eitt sé efnt.

„Á síðasta tímabili gekk þetta allt saman upp og við náðum að safna fyrir okkar helmingi. Ég veit svo sem ekkert hvernig fjárhagslega staðan var á hlutunum hjá klúbbnum sjálfum.“

Bjarki Sigurðsson, þjálfari bikarmeistara ÍR, segir að þótt um ævintýri sé að ræða geti Evrópukeppni knésett félög.

„Ef þú ert heppinn geturðu dregist gegn nágrannaliði. Undanfarið hafa íslensku liðin fengið andstæðinga ansi langt í burtu,“ segir Bjarki. Hann segist vita til þess að hjá öðrum liðum fjármagni leikmenn kostnaðinn að hluta, líkt og hjá Haukum og kvennaliði Fram. Kostnaður á hvern leikmann sé engu að síður mikill.

„Það eru alltaf einhverjir sem verða farþegar í svona söfnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×