Handbolti

Mun selja mig dýrt á móti KA-manni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnór ætlar sér stóra hluti í Þýskalandi.
Arnór ætlar sér stóra hluti í Þýskalandi. fréttablaðið/vilhelm
Arnór Þór Gunnarsson, leikmaður Berghischer, leikur sinn fyrsta leik í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag þegar lið hans mætir þýsku meisturunum í Kiel.

Hornamaðurinn hefur verið hjá félaginu síðan árið 2010 og nú er loks draumurinn að verða að veruleika, að fá að etja kappi við bestu handknattleiksmenn veraldarinnar.

„Þetta hefur verið erfiðasta undirbúningstímabil sem ég hef tekið þátt í, enda erum við komnir í efstu deild,“ segir Arnór Þór í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hef spilað í annarri deild hér í Þýskalandi í þrjú ár og núna er draumurinn orðinn að veruleika. Það eru algjör forréttindi að fá að spila handbolta á sama velli og bestu handknattleiksmenn heimsins.“

Berghischer sigraði í þýsku 2. deildinni á síðustu leiktíð og flaug upp í efstu deild.

„Markmiðið hjá okkur er vissulega að halda okkur í deildinni og reyna að festa okkur í sessi sem úrvalsdeildarklúbbur. Svo getur verið að við setjum okkur fleiri markmið þegar líður á deildina.“

Arnór Þór er uppalinn Þórsari frá Akureyri og mætir í dag miklum KA-manni en Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var lengi vel leikmaður og þjálfari KA á sínum tíma.

„Þú færð ekkert dýrari nágrannaslag og á milli Þórs og KA og ég mun selja mig dýrt á móti KA-manni, en að öllu gríni slepptu þá er Alfreð einn af bestu þjálfurum handboltasögunnar og verður gaman að mæta honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×