Handbolti

Þeir hjálpa mér að ná tökum á þýskunni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarki Már Elísson í leik með HK.
Bjarki Már Elísson í leik með HK. Mynd / Daníel
Bjarki Már Elísson tók skrefið í sumar og gerðist atvinnumaður í handbolta. Hann leikur í dag með þýska úrvalsdeildarliðinu Eisenach sem komst í vor upp í úrvalsdeildina.

Eisenach hefur farið illa af stað í þýsku deildinni á tímabilinu en liðið tapaði fyrir Hannover-Burgdorf með einu marki í fyrstu umferð og síðan í næstu umferð með fjórtán marka mun gegn Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í Füchse Berlin.

„Það er bara draumur að fá að lifa á íþróttinni sem maður elskar. Þetta hefur því verið mikið ævintýri þrátt fyrir slakt gengi til að byrja með,“ segir Bjarki Már.

„Það hefur hjálpað mér mikið að hafa Hannes [Jón Jónsson] í liðinu og hann hefur aðstoðað mig að ná tökum á tungumálinu,“ segir Bjarki en Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins.

„Það er gott að hafa íslenskan þjálfara hér úti en aftur á móti ber hann ábyrgð á því að fá Íslending í liðið og því töluverð pressa á mér að standa mig í vetur.“

Eisenach mætir Lemgo í mikilvægum leik á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×