Hann lýsir Prisoners sem draumaverkefni og segir samstarfið við leikstjóra myndarinnar, Denis Villeneuve, hafa verið sérlega gott. „Ég bjóst eiginlega ekki við að þetta yrði svona áreynslulaust enda hefur maður heyrt alls konar hryllingssögur frá fólki sem vinnur í Hollywood-maskínunni.“
Jóhann var viðstaddur frumsýningar Prisoners í Toronto og Los Angeles, þar sem hann hélt einnig tónleika. „Það var áhugavert að upplifa þessa frumsýningarstemmingu með rauða dregilinn, blaðamannafundi og allt það.“
Prisoners hefur verið orðuð við Óskarstilnefningu, þá hefur tónlist Jóhanns einnig fengið mjög góða dóma. Sjálfur telur Jóhann ólíklegt að hann hljóti verðlaun fyrir tónlistina við Prisoners. „Mér finnst það frekar ólíklegt, enda er ég frekar svartsýnn að eðlisfari. Hins vegar er mjög líklegt að myndin fái einhverjar tilnefningar.“
Jóhann vinnur nú að tveimur evrópskum myndum, önnur er framleidd af Lars Von Trier. „Þetta er mjög svört tragikómedía. Kim Basinger og Jordan Prentice sem lék dverginn í "In Bruges" leika aðalhlutverk en þetta er mjög svört tragi-kómedía. Basinger kemur mjög á óvart í þessari mynd og er samleikur hennar og dvergsins er alveg stórkostlegur,“ segir hann að lokum.