Handbolti

Það er alltaf frábært veður hérna eins og á Akureyri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór er loksins orðinn heill heilsu og sér fram á bjartari tíma á næstu mánuðum.
Arnór er loksins orðinn heill heilsu og sér fram á bjartari tíma á næstu mánuðum. Mynd/Valli
„Lífið er stórkostlegt. Okkur líður mjög vel hérna og erum smám saman að komast inn í hlutina,“ segir Arnór Atlason hress og kátur.

Hann söðlaði um í sumar og samdi til þriggja ára við franska félagið St. Raphael. Það er um 30 þúsund manna bær á Frönsku Rívíerunni. Arnór segir bæinn afar notalegan og veðrið sé að sjálfsögðu mikill bónus.

„Þetta er bara eins og Akureyri. Það er líka alltaf frábært veður hérna eins og á Akureyri.“

Það hefur mikið gengið á undanfarið ár hjá landsliðsmanninum. Skömmu eftir að hann samdi við franska félagið þá sleit hann hásin. Það hélt honum frá æfingum og keppni svo mánuðum skipti. Er hann kom síðan út til Frakklands dundi annað áfall yfir.

„Ég puttabrotnaði nánast um leið og ég kom út. Ég missti því alveg af undirbúningstímabilinu hjá okkur. Ég kom inn í hóp er deildin byrjaði og spilaði mjög lítið í upphafi enda nýbyrjaður að spila. Ég er sífellt að fá meiri spiltíma og í dag spila ég kannski 30 mínútur í leik,“ segir Arnór. Hann er fjölhæfur leikmaður og getur leysti bæði skyttustöðuna og miðjuna.

Hann spilar þó eingöngu á miðjunni hjá St. Raphael líkt og hann hefur gert með sínum félagsliðum. Hann spilar nær eingöngu skyttu með landsliðinu.

Leikmaðurinn er orðinn algjörlega heill heilsu og kennir sér ekki lengur meins.

„Þetta var erfitt í byrjun, ég get alveg viðurkennt það. Vonandi er komið nóg af meiðslum í bili. Ég finn ekkert til í puttanum og hásinin truflar mig ekki að neinu leyti. Ég get alveg spilað af fullum krafti.“

Arnór segir franska handboltann nokkuð góðan.

„Þetta er hörkudeild og við höfum farið þokkalega af stað. Erum í fjórða sæti. Við töpuðum tveim leikjum sem við áttum að vinna. Það vantar smástöðugleika hjá okkur. Sjö bestu liðin hér eru mjög góð. Svo eru líka slakari lið eins og alls staðar. Þetta er jöfn deild fyrir utan Paris sem er með frábært lið. Liðin í deildinni hér hafa styrkt sig mikið síðustu ár,“ segir Arnór og bætir við að ágætlega sé mætt á völlinn.

Akureyringurinn kunni ekkert í frönsku er hann fór út en segir að það gangi ágætlega að læra frönskuna. Hann er farinn að geta tjáð sig lítillega.

„Ég er aðeins farinn að láta heyra í mér. Ég og tveir Danir sem komu líka í sumar erum saman í frönskutímum. Það er alltaf gaman að læra nýtt tungumál. Ég er að veða búinn að læra þau nokkur núna,“ segir Arnór en hann talar einnig reiprennandi dönsku og þýsku.

Það styttist í Evrópumótið í Danmörku og landsliðið kemur saman á næstu dögum í æfingabúðum. Arnór bíður spenntur eftir því.

„Ég er ekki farinn að horfa alveg á EM. Eftir öll þessi meiðsli þá horfi ég ekki lengra en fram í næstu viku. Ég hlakka mikið til að hitta strákana í landsliðinu. Ég hef ekki verið mikið með vegna meiðslanna fyrir utan síðasta sumar. Þá var ég ekki í neinu formi til að spila landsleiki. Nú er ég á leiðinni upp aftur og það verður gaman að láta til sín taka á nýjan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×